139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að tala áfram um réttlætið sem ég var hædd fyrir að tala um sem „svokallað“, það er langt því frá. Ég held að réttlæti skipti mjög miklu máli í öllum samfélögum. En „að jafna út“? Þá verð ég að fá að skilja þetta betur. Lífeyrissjóðirnir eru eign allra landsmanna, þeir fjármagna Íbúðalánasjóð og þeir fjármagna lífeyrislán sem fólk tekur. Úr þessum sjóðum fá þeir núna greiðslur sem eru orðnir 67 ára og eldri og öryrkjar. Sjóðirnir eru þegar búnir að skerða greiðslur til þessa fólks. Við hér á Alþingi höfum fryst bætur í almannatryggingakerfinu því að almannatryggingakerfið er stór útgjaldaliður í ríkissjóði og þetta var ein af þeim leiðum sem gripið var til, nema á þeim sem eru með allra lægstu bæturnar eða einstaklingum með um 180 þús. kr. á mánuði.

Get ég staðið hér sem fullvaxta kona á besta aldri með ágætisaflahæfi og talið að það sé í nafni réttlætis sem ég óski eftir því að þessir hópar beri með mér byrðarnar?