139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta síðasta var eiginlega högg undir beltisstað og hv. þingmaður ætti kannski að biðjast afsökunar á því en það sýnir hvað hann er rökþrota.

Það sem ég sagði, og veit ekki betur, er að komið hefur fram hjá Hagsmunasamtökum heimilanna að 27 þúsund heimila eru leigjendur. Þeir fá ekki neitt, en þeir fá að borga í gegnum lífeyrissjóðinn sinn í skerðingu réttinda, í gegnum Íbúðalánasjóð með hækkun skatta og hugsanlega hjá bönkunum ef kröfuhafar þar fara í mál og íslenska ríkið tapar. Þá vil ég taka það fram að ég er ekki að gæta hagsmuna kröfuhafa bankanna, alls ekki, en þeir njóta líka eignarréttar á Íslandi þó að þeir séu útlendingar.

Þessi hópur manna borgar bara. Svo er ákveðinn hópur manna sem skuldar ekki neitt. Ég veit ekki hvað hann er stór, það er oft ráðdeildarsamt fólk og mjög nægjusamt og oft eldra fólk. Það fólk er búið að greiða upp lán sín og það á líka að borga í gegnum þessi sömu kerfi.

Þá er það spurningin um þá sem eftir verða, það eru kannski 30% eða 40%. Það væri nú gaman, frú forseti, að vita það. Sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður styður er búin að hafa mörg ár til að afla þessara upplýsinga og halda þeim í umræðunni. Af þessum hópi lagði helmingurinn á sig að hafna greiðslujöfnun, þ.e. að greiðslurnar færu eftir launum en ekki eftir vísitölu. Hann lagði á sig ferð til þess, sem segir mér að sá hópur er ekki í vanda og sennilega eru fleiri í vanda sem gleymdu því. Ég var einmitt að tala við einn í morgun sem hafði gleymt að biðja um að fá að borga meira.

Það er því sennilega — og nú talar maður aftur um „sennilega“, samkvæmt upplýsingum — ekki mjög stór hluti þjóðarinnar sem þyrfti á þessu að halda. Þetta er ekki hagfræði, þetta eru bara upplýsingar.