139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:16]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Menn geta kallað það hagfræði sína, upplýsingar eða hvaða nafni sem þeir vilja. En ég hef aðrar upplýsingar en þær að skuldavandi heimilanna sé aðeins örlítill og bundinn við fáeina óráðsíumenn. (PHB: … Þetta sagði ég aldrei. Þetta …) Þetta skildi ég út úr orðum hv. þingmanns.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að sem betur fer eru hugsanlega um 25% heimila í landinu ekki í miklum vanda. Ég fagna því, mér finnst það alveg dásamlegt. Þætti okkur það góður árangur í skipsstrandi ef fjórði hver sem var um borð hefði sloppið lifandi og þurr frá strandinu, þætti okkur það góður árangur?

Hér varð hrun. Þetta hrun mun með einum eða öðrum hætti bitna á öllum íbúum þessa lands, einstaklingum, fyrirtækjum, skuldugum, skuldlausum, lífeyrissjóðum, bönkum, sjúkrahúsum úti á landi. Það bitnar á okkur öllum. Það er þetta sem er kallað hrun. Það er út af þessu sem við lifum núna sérstaka tíma og við þurfum að taka á honum stóra okkar.