139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

8. mál
[16:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir að koma fram með þessa þingsályktunartillögu og þeim sem flytja hana. Það er afar notalegt á þessum tíma að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir og horfa til framtíðar og leita lausna á því hvernig við getum búið betur að eldri borgurum.

Með tillögunni er vakin athygli á að það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig við mótum heildstæða þjónustu í héraði og hvernig við búum að fólki. Það er einmitt eitt af því sem breytist núna við skipan ráðuneyta. Við losnum við togstreituna sem hefur verið á milli félags- og tryggingamála og heilbrigðismála í þessum málaflokki. Þá getum við líka, ef við tökum skrefið lengra og færum þjónustuna almennt í málefnum aldraða yfir til sveitarfélaganna, svipað og með málefni fatlaðra, þá ættum við að geta skipulagt þjónustuna betur og hún yrði í tengslum við heilsugæsluna. Það væri góð heilsugæsla, góð hjúkrun, heimahjúkrun, heimaþjónusta og heildarþjónusta fyrir eldri borgara.

Einnig má hugsa sér að taka á málinu með svipuðum hætti og verið er að gera í málefnum fatlaðra og koma upp notendastýrðri þjónustu að einhverju leyti fyrir eldri borgara þar sem viðkomandi getur sjálfur stýrt því hvaða þjónustu hann fær á hverjum tíma inn á heimili sitt. Ég stend því ekki upp í andsvari til að kasta fram mörgum fyrirspurnum eða gera athugasemdir heldur fyrst og fremst til að þakka fyrir að málið sé flutt. Ég hlakka til að taka þátt í því að vinna að frekari úrvinnslu þess svo auka megi lífsgæði eldri borgara og búa þeim betra ævikvöld.