139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

8. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra. Það eru sóknarfæri varðandi heimaþjónustu fyrir eldri borgara. Við höfum búið við það kerfi að þetta er á hendi tveggja aðila í dag; heimahjúkrunin er hjá heilsugæslunni sem er hjá ríkinu en félagsleg heimaþjónusta eins og matarinnkaup, þrif og léttari þjónusta er hjá sveitarfélaginu. Þessir tveir aðilar hafa svona meira og minna ýtt þessu frá sér yfir á hinn og kannski hafa aðallega sveitarfélögin ýtt því frá sér yfir á ríkið, þunginn hefur verið meiri í þá áttina, held ég. Þetta er auðvitað gríðarlegur galli. Best væri ef þetta væri á hendi sama aðilans og þá væri annaðhvort allt hjá ríkinu eða allt hjá sveitarfélaginu. Ég ætla ekki að útiloka að þetta fari allt til ríkisins en tilhneigingin hefur verið að færa frekar verkefni til sveitarfélaga en frá þeim og þá færi heimahjúkrunin með einhverjum hætti frá ríki til sveitarfélags.

Ég vil líka benda á það sem kom fram í svari hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar til mín þegar spurt var hvað heimsóknir í heimahjúkrun kosta miðað við rými á hjúkrunarheimili. Svarið var: Eitt rými á hjúkrunarheimili kostar það sama og 25–26 heimsóknir í heimahjúkrun til sama einstaklings (Gripið fram í: Á viku.) — á viku. Þetta þýðir að hægt er að fara þrisvar til fjórum sinnum á dag með heimahjúkrun sem er dýrara úrræði heldur en heimaþjónusta félagsþjónustunnar. Ef þetta væri blanda af heimahjúkrun og félagslegri þjónustu sveitarfélags, sem er ódýrari, væri hægt að fara oftar en þrisvar, fjórum sinnum á dag. (Forseti hringir.) Það er því borðleggjandi að auka þarf þessa þjónustu.