139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

8. mál
[16:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að fagna þessu máli sérstaklega. Það lætur ekki mikið yfir sér en er risastórt í þeim skilningi að það bætir lífsgæði mjög margra sem eiga það svo sannarlega skilið. Það spillir auðvitað ekki fyrir að af þessu hlýst gríðarlegur samfélagslegur sparnaður. Félagsleg einangrun er einn ömurlegasti fylgifiskur nútímasamfélags og henni fylgir oft þunglyndi. Talað er um að allt að 10% aldraðra geti þjáðst af þunglyndi og það er auðvelt að slá á það með litlum meðulum.

Oft er gengið út frá því að þeir sem eiga rétt á ákveðinni þjónustu beri sig eftir henni. Aldraðir eru í mörgum tilfellum ekki færir um það og því brýnt að hið opinbera nálgist þá með þeim hætti sem hér er lagt til. Auðvitað mætti hugsa sér svipaða þjónustu fyrir miklu fleiri hópa samfélagsins.

Mér finnst stundum að við gleymum framtíðinni. Við erum auðvitað upptekin af nútíðinni og nokkrir af fortíðinni en hafi maður ekki skýra sýn á framtíðina getur verið erfitt að taka ákvörðun af viti og tilviljun ein getur auðveldlega ráðið því hvort ákvörðunin leiðir til góðs eða ills.

Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er lögð til grundvallar breyting á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu í landinu. Hún er byggð á forvörnum og heimaþjónustu, sálgæslu og sterkri heilsugæslu með öflugum sjúkrahúsum sem hryggjarstykki. Þetta er eflaust góð leið og getur stuðlað að skilvirkni og hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu til lengri tíma litið og getur jafnvel treyst búsetuskilyrði mjög víða um land. Tillögurnar birtast hins vegar með öllum sínum niðurskurði fyrirvaralaust. Það er því eðlilegt að um þær ríki ekki full sátt í upphafi. Það hefði verið betra að fara ögn hægar.

Þessi litla þingsályktunartillaga sem nú er á dagskrá gæti auðveldlega verið eitt lítið skref í þá átt sem stefna ber að í heilbrigðisþjónustu. Þetta er lítið og yfirlætislaust mál sem er líklegt til að veita fjölda manns gleði, fresta ótímabærum innlögnum á sjúkrastofnanir og spara mikið skattfé.

Fyrir nýgræðing sem fylgst hefur með Alþingi utan frá og hefur stundum samsamað sig, fullmikið kannski, með mótmælum fyrir utan húsið, er sérstaklega ánægjulegt að sjá þetta dæmi um hæfileika manna til að vinna saman. Hávaðalaust er málið flutt af þingmönnum úr öllum flokkum og verður eflaust samþykkt einróma, hvort heldur sem þeir koma frá höfuðborginni eða landsbyggðinni.

Tillagan er lítil birtingarmynd þess sem fólkið í landinu kallar eftir með mjög kröftugum hætti; samvinnu allra þingmanna úr öllum flokkum til að byggja upp manneskjulegt samfélag.