139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

8. mál
[17:05]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka mjög fyrir þær jákvæðu umræður sem hafa orðið um þetta mál. Hér talaði hv. þm. Logi Már Einarsson, ég held að það hafi verið jómfrúrræðan hans, og mæltist vel. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Loga Más Einarssonar, það er þverpólitísk samstaða á bak við þetta mál og það er flutt hér í allri hógværð, það er alveg rétt, en skiptir mjög miklu máli þótt það sé ekki stórt í texta séð.

Hv. þingmaður minntist á félagslega einangrun. Það er einmitt mjög mikilvægt að brjóta hana þar sem hún er fyrir hendi. Þetta er mál sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur verið að skoða, þ.e. hvað önnur lönd eru að gera í því. Það er mjög merkilegt sem sérstaklega Noregur er að gera í þessu sambandi. Ég ætlaði að deila því hér með þingheimi og öðrum sem eru að hlusta að Norðmenn hafa víða búið til kerfi þar sem frjáls félagasamtök koma að til þess að auka lífsgleði eldri borgara. Sums staðar hafa verið ráðnir einstaklingar sem vinna í tengslum við bæði dvalarheimili og hjúkrunarheimili og aðra hópa eldri borgara. Þetta er mjög ódýrt úrræði af því að það byggir líka á frjálsum félagasamtökum, en það er einhver samt sem er á kaupi frá sveitarfélaginu sem heldur utan um þetta. Af því að ég veit að hv. þm. Logi Már Einarsson er menntaður arkitekt frá Noregi ætla ég að segja starfsheitin á norsku, það eru tvö nöfn sem ég hef heyrt yfir þann sem er ráðinn, þ.e. „livsgledekoordinator“ sem er þá lífsgleðifulltrúi, eitthvað slíkt, og „trivselsagent“, einhver sem hjálpar upp á að menn þrífi sig og líði vel. Þá eru ráðnir einstaklingar sem vinna með frjálsum félagasamtökum að því að auka lífsgæði eldri borgara. Þetta getur verið háskólasamfélagið, háskólafélög og önnur slík grasrótarsamtök sem vilja hjálpa eldri borgurum til að njóta lífsins þótt þeir séu margir orðnir gamlir og lasburða. Sumir þessara eldri borgara eru líka „dement“, komnir með alzheimer eða geðræna sjúkdóma sem herja á þá og einangrast oft mjög mikið vegna þess að það getur verið flókið að umgangast þá sem eru með þessa sjúkdóma á talsvert háu stigi.

Þá er reynt að koma því þannig fyrir að kynslóðirnar mætist. Það er boðið upp á ferðir eldri borgara í leikskóla og leikskólarnir koma í heimsóknir inn á dvalarheimilin og hjúkrunarheimilin. Stúdentafélög sjá um veislur á heimilum eldri borgara, á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum. Allir fara í fín föt og það er bara svakafjör. Það er líka farið í alls konar útivist og þetta er alveg skipulagt þannig að það er mikið fjör og mikil lífsgleði í kringum þetta. Þetta er gert til að rjúfa félagslega einangrun. Ég held að þetta sé nokkuð sem við gætum líka gert á Íslandi í stærri stíl en við gerum í dag.

Ég vil líka aðeins koma inn á það sem hv. þm. Ólafur Gunnarsson sagði áðan. Það er rétt með farið að hvert hjúkrunarrými er hlutfallslega dýrt í þjónustunni. Samkvæmt upplýsingum í ár kostar hvert hjúkrunarrými 7,8 millj. kr. í rekstri. Ég minntist hér á að fyrir sama pening væri hægt að fara þrisvar til fjórum sinnum heim til eldri borgarans og þjónusta hann þar í staðinn fyrir að hafa sömu manneskjuna í hjúkrunarrými og ég vil líka nefna að það kom fram í því svari sem ég fékk á sínum tíma að fáir staðir eru með félagslega heimaþjónustu eða heimahjúkrun á kvöldin, næturnar og um helgar. Þetta er nokkuð sem ég held að þurfi að bæta. Það væri kannski hægt að gera það í tengslum við þessar kerfisbreytingar sem nú er verið að gera á heilbrigðisþjónustunni úti á landi og hv. þm. Logi Már Einarsson minntist á áðan, að fara út úr þjónustunni eins og hún er í dag og auka heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu. Þá væri væntanlega viðbót við þjónustuna á kvöldin, næturnar og um helgar þannig að fólk gæti verið lengur heima og þyrfti ekki að fara inn á stofnun of snemma.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði að það ætti ekki að ýta þjónustu að fólki sem þyrfti kannski ekki á henni að halda. Það er alveg rétt. Í því máli sem hér er flutt er verið að tala um að þetta séu árlegar heimsóknir, ekki tvisvar á ári. Í Danmörku er boðið upp á þetta tvisvar á ári en hér er verið að tala um einu sinni á ári. Það getur vel verið að það sé sniðugt að fara í tilraunaverkefni, prófa þetta í eitt ár eða tvö eða þrjú og jafnvel að fara til 80 ára og eldri til að hafa verkefnið sem tilraunaverkefni og byrja á þessum elsta hóp.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson þekkir vel til þessara mála, hann er öldrunarlæknir, og það kom fram hjá honum að frekar stórt hlutfall eldri borgaranna okkar kemur á heilsugæslustöðvarnar þannig að þá er hægt að halda utan um það hvaða þjónustu eldri borgarar þurfa. Í Danmörku er hins vegar farið inn á heimilin og það er svolítið atriði. Að mínu mati er ekki nóg að eldri borgarar komi á heilsugæslustöðina og beri sig þar upp með vandamálin, heldur að það sé farið inn á heimilin hjá þeim sem vilja það. Menn mega neita og þá er heimsóknin bara afþökkuð en það er mikilvægt að fagaðilar fari inn á heimilin til að sjá þá sem eru á þessum aldri og heimilisaðstæður þeirra, hvernig húsnæðið lítur út, hvort um miklar tröppur sé að ræða o.s.frv., aðstæðurnar sem fólkið býr við til að geta boðið upp á endurhæfingu, líkamsþjálfun eða annað svo hægt sé að halda fólki virku heima lengur. Fyrir mig er það atriði að það sé farið heim til fólks.

Það er búið að prófa þetta að einhverju leyti hér og þar á Íslandi. Ef ég man rétt var þetta prófað í Garðabæ. Það var farið heim til fólks og reynt að fyrirbyggja heimaslys hjá eldri borgurum með litlum tilfæringum. Þetta eru oft mjög einföld úrræði sem geta komið í veg fyrir beinbrot. Ég held m.a.s. að félagsmálanefndin sjálf, sveitarstjórnarmennirnir voru í henni og fleiri, hafi skipt með sér götunum og farið heim til fólks í þessu skyni. Fyrir mig er það atriði að fólk sé heimsótt þannig að aðstæður heima séu teknar út í leiðinni.

Ég vil að lokum þakka fyrir góðar undirtektir og vona að þetta mál fái jákvæða umfjöllun í heilbrigðisnefnd.