139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

rýmri fánatími.

9. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rýmri fánatíma og er ein flutningsmaður. Þetta mál er ekki stærsta málið í umræðunni í samfélaginu í dag, alls ekki. Það gengur mjög mikið á í samfélaginu en þar sem þingmenn hafa tækifæri til að koma málum inn meðan við bíðum eftir stóru málunum frá ríkisstjórninni og kannski fleirum líka, ef tekst að koma einhverjum sameiginlegum tillögum á framfæri varðandi skuldavanda heimilanna, flytjum við þau mál sem eru tiltæk. Þetta komst á dagskrá þannig að það er flutt þó að segja megi að málið sé mjög sérhæft.

Það gengur út á, virðulegi forseti, og ég ætla að vitna í tillögugreinina, hún hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja reglugerð um notkun þjóðfánans í því skyni að rýmka fánatíma.“

Þetta mál gengur út á að rýmka fánatímann. Í dag er fánatíminn mjög skýr, þ.e. hvað við megum hafa fánann lengi við hún, en ég vil rýmka þann tíma og mun fjalla um það aðeins betur síðar í framsögu minni.

Lögin um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið eru að stofni til frá árinu 1944 og hafa tekið mjög litlum breytingum frá upphafi þannig að það mega vera rök fyrir því að þau séu fullgamaldags. Tillöguna færi ég fram og vil helst að samþykkt verði í þinginu áskorun eða ályktun til forsætisráðherra um að setja reglugerð um nánari útfærslu á fánalögunum. Sú reglugerð sem átti að setja hefur reyndar aldrei verið sett þannig að svokallaður forsetaúrskurður er enn í gildi en samkvæmt lögunum á að setja reglugerð um fánadaga og hve lengi dags megi halda fánanum við hún o.s.frv. Það hefur ekki verið gert þannig að nú legg ég til að forsætisráðherra setji reglugerð og hún hljómi þá ekki eins og í dag. Í dag hljómar fánatíminn svona og í forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma, nr. 5/1991, segir í 3. gr. og ég ætla að lesa þá grein, með leyfi virðulegs forseta:

„Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og skal hann að jafnaði eigi vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.“

Ég vil breyta þessari reglu og koma því þannig fyrir að svigrúmið verði aukið þannig að fánann megi hafa uppi allan sólarhringinn yfir bjartasta tímann á sumrin frá 15. maí til 15. ágúst. Þetta mál gengur út á það. Á hluta þessa tímabils er sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar. Það má svo vel vera að í framtíðinni vilji menn afnema fánatímann með öllu þannig að fáninn megi vera uppi allan sólarhringinn allt árið, en sú er hér stendur telur hins vegar eðlilegt að tekið verði eitt skref í einu og reynslan síðan látin skera úr um hvort frekari skref verði tekin. Það er því rétt að byrja á því að heimila að fáninn sé uppi allan sólarhringinn á sumrin. Ég tel og veit að Íslendingar eru mjög stoltir af fána sínum og vilja gjarnan flagga honum. Þó maður hafi ekki töluverðar upplýsingar um fánanotkun almennings þá færi vel á því að við notuðum fánann meira og flögguðum honum oftar. Ég tel að þessi breyting mundi fela í sér aukna notkun á þjóðfánanum. Ég held að sú aukning kæmi sérstaklega fram á sumrin við bæði íbúðarhús, heimili fólks, og ekki síst við sumarbústaði um landið. Það eru margir sem hafa áhyggjur af því að gleyma að taka fánann niður á kvöldin og brjóta þannig fánareglurnar eins og þær eru í dag. Ég tel að með breyttu fyrirkomulagi, með því að heimila að fáninn sé við hún allan sólarhringinn á sumrin frá 15. maí til 15. ágúst, muni fáninn blakta víðar en hann gerir nú á dögum.

Ég vil líka bæta því við í lokin, virðulegi forseti, að farið hefur fram umræða í samfélaginu á seinni árum um aukið frjálsræði á notkun fánans með tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Ég vil einnig halda því til haga að Bændasamtök Íslands hafa verið því fylgjandi að unnt yrði að merkja íslenskar landbúnaðarvörur með þjóðfánanum. Það voru gerðar breytingar 1998 í þá veru en vegna vankanta hefur ekki tekist að koma þeim breytingum í framkvæmd. Bændasamtökin hafa ályktað um þessi mál og það varð til þess að forsætisráðherra lagði fram frumvarp á síðasta þingi sem miðar að því að það yrði gert mögulegt að auka svigrúmið til notkunar þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Það átti að sníða af núverandi vankanta. Það frumvarp náði því miður ekki fram að ganga. Mælt var fyrir því á síðasta þingi en tiltölulega seint og ég vona að hæstv. forsætisráðherra drífi sig með það mál inn aftur. Það væri þá hægt að afgreiða það þannig að við getum farið að merkja íslenskar landbúnaðarafurðir með þjóðfánanum. Það gera Danir, Norðmenn og ég held fleiri þjóðir. Fánatíminn yrði þá líka rýmdur eins og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu.