139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

hámarksmagn transfitusýra í matvælum.

11. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Þetta er tillaga sem var líka flutt á 135., 136. og 138. löggjafarþingi. Ég á frekar von á því að hún verði flutt á þessu þingi þangað til hún verður samþykkt af því að ég held að mjög líklegt sé að Ísland vilji taka það skref eins og Danir hafa gert að takmarka magn transfitusýra í matvælum.

Þetta mál er flutt af þingmönnum úr öllum flokkum nema Hreyfingunni. Ég vil taka sérstaklega fram að þingmenn Hreyfingarinnar eru hlynntir því og tilgreini þá kannski sérstaklega hv. þm. Margrét Tryggvadóttir en hún er mjög mikill stuðningsmaður þessa máls svo ég komi því á framfæri. Það er eiginlega skaði að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir skyldi ekki vera meðflutningsmaður líka en væntanlega, ef málið verður ekki samþykkt á þessu þingi, gæti hv. þingmaður verið flutningsmaður næst þegar það verður flutt.

Sú er hér stendur er fyrsti flutningsmaður en aðrir flutningsmenn eru hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þuríður Backman, Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Guðmundur Steingrímsson.

Ég vil gjarnan í upphafi fá að lesa tillögugreinina, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja undirbúning að setningu reglna um að hámarksmagn transfitusýra í matvælum verði tvö grömm í hverjum hundrað grömmum af fitumagni vörunnar.“

Þetta er nokkuð nákvæmt mál, virðulegi forseti, hámarkið verði 2 grömm af transfitusýrum í hverjum 100 grömmum af fitumagni vörunnar.

Það er alveg ljóst að á síðustu árum hefur verið mikil umræða um transfitusýrur í matvælum, sérstaklega á Norðurlöndunum. Það er vegna þess að neyslan á transfitusýrum eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum mun meira en neysla á mettaðri fitu sem er þó vel þekktur áhættuvaldur fyrir slíka sjúkdóma. Transfitusýrur valda hækkun á svokölluðu slæmu kólesteróli eða LDL-kólesteróli og lækkun á góðu kólesteróli eða HDL-kólesteróli. Að auki eykur neysla hertrar fitu eða transfitusýra hættu á offitu og sykursýki 2 og líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eru taldar aukast um 25% ef neytt er 5 gramma af hertri fitu á dag. Auðvelt er að fá það magn í einni máltíð eingöngu þannig að þetta er að mínu mati frekar mikill áhrifavaldur.

Transfitusýrur myndast þegar olía er hert en hörð fita er notuð til að matvæli fái ákveðna eiginleika sem taldir eru eftirsóknarverðir, svo sem aukið geymsluþol. Transfitusýrur eru settar út í matvæli til að þau fái aukið geymsluþol og eins og allir í nútímasamfélagi skilja er frekar eftirsóknarvert að geta keypt matvæli sem hafa langan geymsluþolstíma. Því miður eru óæskileg efni sett í vöruna, eins og transfitusýrur.

Þær vörur sem helst er að finna transfitusýrur í eru matvörur, svo sem bökunarsmjörlíki eða djúpsteikingarfeiti, sem innihalda herta fitu og eru notaðar við framleiðslu. Þær vörur sem mögulega innihalda transfitusýrur eru t.d. smjörlíki, steikingarfeiti, kökur og kex auk franskra kartaflna. Þá inniheldur djúpsteiktur skyndibitamatur, örbylgjupopp, snakk og sælgæti í mörgum tilvikum umtalsvert magn transfitusýra. Svo má líka finna transfitusýrur frá náttúrunnar hendi í t.d. rjóma og smjöri. Dæmi eru um í iðnaðarframleiddri matvöru að hert fita geti verið allt að 60% af heildarfitumagni í matvöru, sem sagt meira en helmingur af fitumagninu.

Danskur læknir sem heitir Steen Stender, yfirlæknir á Gentofte Hospital í Danmörku, hefur rannsakað magn transfitusýra í ákveðnum fæðuflokkum sem hann valdi sjálfur. Um er að ræða skyndibita, kex, kökur og örbylgjupopp. Á þeim lista sem þessi danski yfirlæknir hefur tekið saman, hann er mikill frumkvöðull að því að Danir ákváðu að takmarka magn transfitusýra í mat í Danmörku, bar hann saman lönd í sambandi við þessa völdu fæðuflokka. Svo gerði hann lista 24 þjóða þar sem fram kom meðaltalsmagn transfitusýra í þessum fæðuflokkum og Ísland var með. Ísland lendir þar í 8. sæti á listanum, sem sagt í áttunda versta sætinu.

Það vekur mikla athygli þegar maður sér þennan lista, en listinn er í greinargerðinni, að við röðum okkur í þessum efnum á bekk með Austur-Evrópuþjóðum og Bandaríkjamönnum sem tróna á toppnum. Aðrar Norðurlandaþjóðir eru í botnsætunum og Danmörk er neðst. Danmörk er með 0,4 grömm transfitusýra í 100 grömmum af þessum völdu fæðuflokkum og í neðsta sætinu, síðan kemur Sviss sem er með 5 grömm í næstneðsta sæti, svo koma hinar þrjár Norðurlandaþjóðirnar fyrir utan okkur sem erum allt of ofarlega: Finnland er með 10 grömm, Svíþjóð 14 grömm og Noregur með 16 grömm. Ísland er með 35 grömm og er í áttunda sæti. Svo koma lönd fyrir ofan Ísland: Perú 36, Kanada 36 grömm, Bandaríkin 36 grömm, Búlgaría 38 grömm, Pólland 39 grömm, Tékkland 41 gramm og Ungverjaland 42 grömm. Við erum með Austur-Evrópuþjóðum og Bandaríkjamönnum á toppnum í magni transfitusýra en aðrar Norðurlandaþjóðir á botninum. Við eigum að koma okkur á botninn, virðulegi forseti, og vera með hinum Norðurlandaþjóðunum í lágu magni transfitusýra í matvælum. Það á að vera okkar markmið.

Steen Stender fullyrðir að transfitusýrur séu ágætar í skóáburð og koppafeiti en eigi ekkert erindi í matvæli sem ætluð eru til manneldis. Ég vil líka draga fram að samkvæmt ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er æskilegt að neysla transfitusýra fari ekki yfir 2 grömm á dag. Rannsóknir á neysluháttum Íslendinga gefa til kynna að neysla á transfitusýrum sé hér nokkuð hærri en þau mörk og hærri en sambærilegar neyslutölur hjá mörgum öðrum Evrópuþjóðum og þá sérstaklega hjá Norðurlandaþjóðunum.

Neysla á transfitusýrum hefur þó minnkað um tæplega þriðjung á sl. tveimur áratugum. Það er jákvætt. Þar vegur þyngst minni smjörlíkisneysla og líka að samsetningunni í smjörlíkinu var breytt. Við Íslendingar skipum okkur nú hins vegar á bekk með þeim sem neyta einnar mestrar hertrar fitu eða um 3,5 grömm á dag sem er tæplega tvöföld sú neysla sem mælt er með. Við erum því að innbyrða of mikið magn transfitusýra.

Á Íslandi er ekki skylda að merkja matvörur með næringargildismerkingu. Engar reglur eru í gildi um leyfilegt magn hertrar fitu í matvælum og ekki til reglur um merkingar á matvöru varðandi magn þessarar fitu. Neytendum sem vilja forðast transfitusýruna er ekki gefinn kostur á því eða geta það bara ekki því að yfirleitt stendur ekkert á umbúðunum.

Danir settu árið 2003 reglur sem kveða á um að feitmeti sem reglurnar ná til megi ekki innihalda meira en 2 grömm af transfitusýru af hverjum 100 grömmum af fitu. Dönsk stjórnvöld hafa sýnt mikla ábyrgð og losað neytandann úr þeim aðstæðum að innbyrða of mikið magn transfitusýra. Það losar líka neytandann úr því hlutverki að þurfa að lesa og reikna út af hverri matvöru fyrir sig hvernig hann blandar matvörunni saman þegar heim er komið o.s.frv. Dönsk stjórnvöld tóku þetta á sig og settu mörk með lýðheilsu að sjónarmiði. Danir lentu í vandræðum með þetta fyrst. Evrópusambandið samþykkti reglurnar í upphafi, þessar dönsku, en síðan komu kærur frá tveimur matvælaframleiðendum sem töldu að þær hindruðu frjálst flæði matvöru innan sambandsins. Evrópusambandið gerði athugasemd og óskaði eftir því að Danir felldu reglurnar niður vegna þess að þeir töldu að þær kynnu að hindra frjálst flæði matvöru innan ESB. Danir gáfu sig ekki, þeir neituðu og voru tilbúnir að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn og sambandið féll frá málaferlum á hendur Dönum því að það þótti sýnt og sannað að Danir væru með þessu að sporna við hugsanlegu heilsutjóni þegna sinna af völdum óæskilegs mataræðis sem felst í neyslu transfitusýra og sú niðurstaða byggðist á viðurkenndum vísindarannsóknum. Evrópusambandið hrökklaðist frá því að reyna að hnekkja þessu banni Dana. Bannið stendur og þar með er Evrópusambandið eiginlega búið að taka afstöðu til þess og viðurkenna að eðlilegt sé að lágmarka transfitusýru í matvælum, ekki bara í Danmörku heldur annars staðar í Evrópu líka. Ég held að Evrópa öll muni taka þetta upp með tíð og tíma.

Reynsla Dana sýnir að þeir sem flytja inn vörur til Danmerkur, jafnvel frá löndum sem hafa engar reglur og löndum sem hafa engar reglur um þessi mál, að framleiðendurnir hafa breytt framleiðsluháttum sínum til að koma til móts við dönsku reglurnar. Það er mjög jákvætt. Það var ekki þannig að Danir þyrftu að skipta vörum út í stórum stíl heldur tóku framleiðendurnir það á sig margir hverjir að breyta framleiðsluháttum þannig að Dönum líkaði og varan stæðist hinar dönsku reglur. Ég held að ef við gerðum það sama og Danir gætum við líka sagt það sama. Þeir sem seldu okkur vöruna mundu breyta framleiðsluháttum sínum þannig að við gætum keypt af þeim.

Ég tel að við eigum ekki að fara þá leið að setja ábyrgðina á neytandann. Ég vil gjarnan að við merkjum vöruna en ég tel að við eigum líka að setja hámarksgildi eins og Danir. Við eigum ekki bara að merkja og segja svo: Neytandi góður, þú getur lesið merkinguna og reyndu svo að halda þig í lágu magni transfitusýra. Ég held að við eigum ekki að gera það heldur fara dönsku leiðina.

Ég vil koma því á framfæri í lokin að best væri ef neytendur veldu olíu og mjúka fitu í stað hinnar hertu. Ég vil líka nefna að rannsóknir benda til að lýsisneysla vinni gegn neikvæðum afleiðingum af neyslu transfitusýra. Mér finnst þetta mjög merkilegt af því að við Íslendingar erum dugleg að taka lýsi. Sú er hér stendur fékk tækifæri til að spyrja Steen Stender, yfirlækni á Gentofte, út í þetta af því að Íslendingar borða mikið magn transfitusýra hlutfallslega en eru ekki út úr kortinu varðandi hjarta- og æðasjúkdóma miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir. Það má vera að þessi sæmilega umfangsmikla og almenna lýsisinntaka Íslendinga vinni verulega gegn óæskilegum afleiðingum af transfitusýrum. Það er vonandi að sú gamla og góða hefð að taka lýsi á morgnana breytist ekki. Það er ástæða til að skora á almenning að taka lýsi.

Síðan vil ég nefna að Bandaríkjamenn sem eru með mjög hátt gildi af transfitusýrum eru að huga að þessum málum. New York-borg hefur frá júlí 2007 bannað notkun transfitusýra á veitingastöðum. Þetta er allt á sömu bókina lært, virðulegur forseti. Lýðheilsumálin eru í sókn. Við höfum tekið nokkur önnur lýðheilsumál í gegn upp á síðkastið. Ég vil minnast á að við höfum bannað reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Við höfum líka hindrað að börn og ungmenni leggist á ljósabekki sem eru krabbameinsvaldandi. Ég held að við ættum að drífa okkur í að samþykkja þetta mál þannig að við lágmörkum magn transfitusýra sem Íslendingar innbyrða oft í talsverðum mæli, sérstaklega í skyndibita.