139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna og afskriftir.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa skýrslu Bankasýslunnar þar sem farið er ágætlega yfir þessi mál, m.a. þá aðferðafræði sem þar var notuð, með almennum hætti sem tengjast stofnun nýju bankanna og samninganna milli hinna gömlu og nýju banka. Lagt var mat á eignir gömlu bankanna, þær sem færðar höfðu verið yfir. Þær voru flokkaðar í grófum dráttum niður í fjóra flokka: Tíu stærstu einstöku lántakendurnir, síðan stærri fyrirtæki og meðalstór og svo smásölulán eða „retail-lán“, þar á meðal lán til einstaklinga en fleiri aðila í tilteknum flokki. Síðan voru áætluð ákveðin afskriftahlutföll, mismunandi eftir þessum flokkum, yfirleitt var um langhæstu afskriftahlutföllin að ræða hjá stærstu einstöku lántakendunum. Þar í flokki voru stór og ónýt eignarhaldsfélög og fjárfestingarfélög og síðan löguðust hlutföllin eftir því sem kom yfir í hina flokkana og eignasöfnin voru talin traustari. Það er ekki hægt að gefa upp einhverja eina prósentutölu í hverju tilviki en það er ljóst að eignasöfnin voru öll flutt yfir með talsverðum afföllum. Mikill ágreiningur var síðan um það hversu verðmæt þau væru eða mundu reynast og í samningum milli gömlu og nýju bankanna var tekið á því máli m.a. með því að búa til tilteknar uppgjörsreglur sem taka mið af því hvernig úr eignasöfnunum vinnst og hversu verðmæt þau verða. Því getur framtíðin ein svarað.

Að sjálfsögðu er þar um að ræða meðaltalstölur yfir tiltekin eignasöfn í heild sem felur í sér að reiknað er með því að sum þeirra tapist að mestu leyti eða öllu en önnur afskrifist minna eða ekki neitt. Þannig er þetta, það er villandi að tala um að það sé einhver ein tiltekin prósentutala (Forseti hringir.) sem gildi um alla sem eiga í hlut í hverjum og einum flokki.