139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

stuðningur ráðherra við fjárlagafrumvarpið og atvinnusköpun.

[10:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur hvort hún styðji fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar sem byggir á því að álver verði reist í Helguvík og er marklaust ella.

Í öðru lagi vil ég spyrja hana hvernig hún hyggst skapa atvinnu til þess að fjölskyldur og heimili geti greitt af lánum sínum.

Í þriðja lagi hvernig hyggst hún skapa atvinnu til að bæta stöðu ríkissjóðs með því að breyta atvinnulausum í skattgreiðendur, gjöldum ríkissjóðs í tekjur fyrir ríkissjóð, sem munu vera 3 millj. á hvern mann, og hvernig hyggst hún skapa atvinnu til að hindra brottflutning af landinu? Hvernig hyggst hún skapa atvinnu svo fólk sem sagt verður upp vegna niðurskurðar í fjárlagafrumvarpinu fái vinnu og fari ekki beint á atvinnuleysisskrá?

Í fjórða lagi vil ég spyrja hana hvort henni sé kunnugt um að langtímaatvinnuleysi vex á Íslandi. Það eru 7.270 manns búnir að vera atvinnulausir lengur en í sex mánuði, sem er mannlegur harmleikur, og 5.434 eru búnir að vera atvinnulausir í 12 mánuði, sem er enn þá verra. Mér finnst það mjög alvarlegt mál að menn skuli horfa upp á svona á vaxandi atvinnuleysi. Kannanir hafa sýnt að 80% fólks sem búið er að vera atvinnulaust lengur en í sex mánuði fer aldrei að vinna aftur og verður öryrkjar.

Mér finnst mjög alvarlegt að menn skuli líta fram hjá þeim mikla harmleik sem atvinnuleysið er og ég vil fá að vita hvernig hæstv. ráðherra hyggst skapa atvinnu til að ná því öllu fram sem ég talaði um.