139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

stuðningur ráðherra við fjárlagafrumvarpið og atvinnusköpun.

[10:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir allnokkrar spurningar, þær flokkast væntanlega undir hraðaspurningar ef ég á að ná því að botna þær allar úr ræðustól við þessar kringumstæður.

Í fyrsta lagi vil ég svara fyrsta hluta spurningarinnar að því er varðar fjárlagafrumvarpið. Fjárlagafrumvarpið er stjórnarfrumvarp og ég styð stjórnarfrumvörp, það eins og önnur, frá því að ég tók sæti umhverfisráðherra.

Varðandi umræðu um atvinnumál er það sannarlega mikill harmleikur þegar atvinnuleysi verður viðvarandi í íslensku samfélagi. Þingmaðurinn tekur svo djúpt í árinni að kalla það harmleik og það er rétt, en hagstjórnarráðgjöf Sjálfstæðisflokksins er þó ekki sú sem við þurfum helst á að halda við slíkar kringumstæður. Það eru rétt tvö ár síðan við fórum fram af hengifluginu í íslensku efnahagslífi vegna þeirrar efnahagsstefnu, vegna þeirrar efnahagsráðgjafar. Ég vænti þess að umræða um atvinnumál verði botnuð á lengri tíma en tveimur mínútum í umræðum um atvinnumál á Suðurnesjum hér á eftir sem hæstv. fjármálaráðherra tekur þátt í þar sem við horfumst í augu við þennan harmleik, þennan vanda og þennan viðskilnað Sjálfstæðisflokksins af fullri ábyrgð.