139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

forsendur fjárlagafrumvarpsins.

[11:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er einhver óskaplegur misskilningur hér í gangi um að það sé ríkisstjórn sem ákveði viðmiðanir og aðferðafræði við gerð þjóðhagsspáa. Það hefur aldrei verið þannig. Álver í Helguvík var inni í þjóðhagsáætlun sem ég lagði fram í fyrrahaust, það hafði ekkert með viðhorf manna til þeirrar framkvæmdar að gera. (Gripið fram í: En stöðugleikasáttmálinn?) Ef hv. þingmenn geta aðeins beðið rólegir, þetta er einfaldlega þannig að Hagstofan í dag, áður fjármálaráðuneytið, áður Þjóðhagsstofnun, notar tiltekna viðurkennda aðferðafræði þegar hún leggur grunninn að sínu mati og þá er það einfaldlega hvort tiltekin framkvæmda- og fjárfestingaáform séu komin á það stig að samkvæmt verklagsreglum viðkomandi aðila gangi þau inn í þjóðhagsgrunninn. Hvort þær framkvæmdir eru umdeildar, hvort það sé líklegt að það verði einhver óvissa uppi, ræður ekki því mati. Það er tiltekin skilgreind aðferðafræði sem er lögð til grundvallar þegar spáð er um fjárfestingar rétt eins og aðrar breytur í þjóðhagsforsendum. (Forseti hringir.) Þannig er það. Hv. þingmenn mega ekki tala hér eins og það sé pólitísk ákvörðun, tekin einhvers staðar úti í bæ, (Forseti hringir.) hvað fer inn í mat spáaðila á því (Forseti hringir.) hvernig líklegar þjóðhagshorfur séu.