139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

frestur til að skila erindum til fjárlaganefndar.

[11:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þingmanns finnst mér mikilvægt að hér komi fram að fjárlaganefnd auglýsti vel og vandlega umsóknarfrest fyrir ný erindi til 15. september. Þau erindi sem komu eftir þann tíma voru send til baka með skýringum. Það er vissulega bagalegt og getur komið sér illa ef umsóknarfrestur fer fram hjá fólki en það er hins vegar nauðsynlegt að jafnræði ríki meðal umsækjenda. Sumir hringja og átta sig á því að umsóknarfresturinn er liðinn og senda ekki inn umsóknir, aðrir freista þess að senda inn umsóknirnar samt. Ef ekki á að virða umsóknarfrest þarf að finna aðra leið sem tryggir jafnræði meðal umsækjenda. Þetta er ógerningur nema þá að auglýsa nýjan frest og þá má spyrja: Hvernig eigum við að fara með þær umsóknir sem koma eftir þann frest?

Virðulegur forseti. Vinnulag fjárlaganefndar er fullkomlega eðlilegt og það er líka sanngjarnt.