139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sem betur fer bendir margt til þess að senn sjái til sólar í atvinnumálum á Suðurnesjunum. Vandinn var gífurlega alvarlegur og við sjáum að 11% atvinnuleysi þar samanborið við t.d. rúmlega 5% á Suðurlandsundirlendinu er gífurlega alvarlegt vandamál. Það á rætur sínar að rekja til þess að brotthvarf bandaríska setuliðsins 2006 skildi eftir sig samfélag í sárum og 75% af þessum 11% íbúa þar suður frá sem eru atvinnulausir eru með styttri formlega skólagöngu en framhaldsskólamenntun og það er kjarni þess mikla vanda sem þarna er við að eiga. Fólk með framhaldsskólamenntun og meiri menntun á auðveldara með að fá vinnu og svo að sjálfsögðu rennur það að einhverju leyti saman við vinnumarkaðinn á suðvesturhorninu.

Mestu skiptir að sjálfsögðu að höggva á Helguvíkurhnútinn og þar eru jákvæð teikn á lofti. Það er ágætur gangur í málinu. Það er búið að stilla saman strengi, það er búið að stilla saman alla aðila sem að málinu koma, HS Orku, Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurál og það er bjartsýni ríkjandi núna í því að það verkefni geti gengið fram og að Norðurál geti haldið áfram framkvæmdum sínum við álverið í Helguvík. Þeir segjast vera búnir að fjármagna fyrstu tvo áfangana en þeir munu ekki byrja fyrr en þeir hafa trygga orku fyrir a.m.k. tvo áfanga.

Þá er mjög jákvæður pólitískur gangur í því að færa Landhelgisgæsluna suður eftir og renna henni saman við Varnarmálastofnun og að því vinna nú hæstv. utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra og samkvæmt fréttum gengur það vel. Það er góður gangur í því máli og við getum vonandi fljótlega fengið þær fréttir að það mál sé á einhverjum lokaspretti.

Margt annað má nefna en það skiptir miklu máli að fimm til sjö verkefni gætu færst yfir á framkvæmdastig á næstu vikum, mánuðum, missirum og mestu skipta að sjálfsögðu álversframkvæmdirnar í Helguvík sem hafa (Forseti hringir.) það í för með sér að á höfuðborgarsvæðinu og suður með sjó verða til hátt í 10 þúsund störf á framkvæmdatímanum (Forseti hringir.) og 2.500 varanleg störf.