139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég velti fyrir mér hvort ríkið eigi að koma að atvinnusköpun, og ef svo er, með hvaða hætti. Það er hægt að búa til störf. Það er t.d. gert í Kína þar sem milljónir manna vinna við að opna dyr en það er enginn sérstakur virðisauki fólginn í því. En það er líka hægt að skapa umhverfi þar sem fyrirtæki og atvinnulíf þrífst. Ég er ekki hrifin af sérlausnum og stórum verkefnum og að því leytinu hefur mér stundum fundist umræðan um atvinnumál á Íslandi á villigötum. Rannsóknir hafa sýnt að minni fyrirtæki eru oft með meiri framlegð og arðurinn verður eftir í samfélaginu og skapar meiri hagsæld. Þess vegna held ég að við ættum að hugsa smátt en ekki endilega alltaf stórt.

Ég hef ekkert á móti álverum þótt mér finnist reyndar margt meira spennandi, en áformin um álver í Helguvík get ég hins vegar ekki séð að byggist á raunhæfum forsendum. Málshefjandi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, lýsti biðinni eftir störfum sem búið er að lofa mjög vel. Þegar farið er að lofa stórum verkefnum virðist það nefnilega draga úr frumkvæði einstaklinganna til að taka málin í eigin hendur.

Atvinnuástandið er einna alvarlegast á Suðurnesjum á öllu landinu og það verður ekki leyst með einhverjum töfralausnum eða ofurverkefnum. Ríkið á hins vegar ekki að leggja steina í götu þeirra sveitarfélaga þar sem staðan er verst og það finnst mér nýja fjárlagafrumvarpið gera með freklegum niðurskurði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem mikill fjöldi manna missir vinnuna, sérstaklega konur. Við þurfum að virkja auðlindirnar okkar, og helsta auðlindin er fólkið í landinu. Suðurnesin eru rík af fólki, í því felast mikil verðmæti og því megum við ekki gleyma.

Ég vil nota tækifærið og taka undir hugmyndir Magnúsar Orra Schrams þingmanns um (Forseti hringir.) skattalega hvata til örvunar atvinnulífsins, nýsköpunar og fjárfestinga.