139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn og aftur atvinnumál. Milli þess sem við ræðum atvinnumál ræðum við skuldavanda heimila og fyrirtækja. Það virðist sem menn hafi algjörlega litið fram hjá þeim möguleika að besta almenna ráðið til að gera fólki og fyrirtækjum kleift að standa við skuldbindingar sínar er að auka ráðstöfunartekjurnar. Það verður ekki gert með leið ríkisstjórnarinnar sem hefur farið þá leið að hækka skatta, skerða vaxta- og húsnæðisbætur og koma í veg yfir atvinnuuppbyggingu, með öðrum orðum skerða ráðstöfunartekjur fólks. Sú leið leiðir eingöngu til magnaðs skuldavanda.

Störfin verða til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Til að atvinnulífið fjárfesti í umsvifum og störfum þarf hagstætt atvinnuumhverfi og pólitískan stöðugleika, og óvissan þarf að vera í lágmarki. Það er fróðlegt að sjá hvað ríkisstjórnin er að gera til að stuðla að þessu.

Við eigum jafnframt að nýta orkuauðlindir okkar. Stjórnvöld standa hér í vegi og ráðherrar eru jafnvel dæmdir fyrir að leggja steina í götu atvinnuuppbyggingar.

Eitt annað dæmi um ótta ríkisstjórnarinnar við atvinnuuppbyggingu er þetta Magma-mál. Magma hefur verið lagt í einelti og nú er svo komið að erlendar fjármálastofnanir og fjárfestar eru farnir að spyrja hvað sé eiginlega í gangi á Íslandi. Okkur væri hollt að líta til Fjarðabyggðar þar sem atvinnuleysi er nú 3% og milli 1/4 og 1/3 af öllum útflutningstekjum Íslendinga verður til. Okkur væri hollt að (Forseti hringir.) nota það sem dæmi um hvernig hægt er að byggja upp atvinnulíf á heilbrigðan hátt á þeim svæðum sem hafa einhvern veginn orðið undir.