139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

nauðungarsala.

58. mál
[11:49]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Í frumvarpi þessu er lagt til að tímabil það sem einstaklingar hafa til að óska eftir fresti á því að nauðungarsala á íbúðarhúsnæði þeirra fari fram verði framlengt til 31. mars 2011. Ég mun í örfáum orðum gera grein fyrir sögu málsins og lagatæknilegum atriðum.

Í byrjun árs 2009 var lögum um nauðungarsölu breytt og ákveðið að sýslumaður skyldi að ósk gerðarþola fresta öllum nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Tilgangurinn með frestinum var að auka svigrúm einstaklinga í greiðsluerfiðleikum til að leita úrræða til að endurskipuleggja fjármál sín og hugsanlega komast þannig hjá því að eignir þeirra verði seldar nauðungarsölu.

Með lögum nr. 108/2009 var fallið frá því að fresta öllum stigum á nauðungarsölu en þess í stað kveðið á um að sýslumanni bæri að verða við ósk gerðarþola um að fresta töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða lokasölunni sjálfri fram yfir 28. febrúar 2010. Þannig var gert ráð fyrir að nauðungarsölubeiðnir yrðu teknar fyrir og fyrri sala færi fram en frestað yrði að taka ákvörðun um lokasölu íbúðarhúsnæðis. Þannig færi lokasala ekki fram fyrr en eftir 28. febrúar 2010 ef gerðarþoli óskaði eftir fresti. Nauðungarsölur fóru aftur af stað með þeim takmörkunum að gerðarþoli gat enn óskað eftir fresti á lokasölu og eins og áður við það miðað að tíminn yrði nýttur til endurskipulagningar á fjármálum en ný úrræði til lausnar á skuldavanda heimilanna höfðu verið lögð til á vegum stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.

Í þriðja sinn var fresturinn framlengdur með lögum nr. 11/2010 á þann hátt að gerðarþoli gat óskað eftir fresti í þrjá mánuði á því að tekin yrði ákvörðun um síðari sölu eða að síðari sala færi fram hefði sá dagur verið ákveðinn. Þótti framlenging frestsins vera nauðsynleg svo að skuldurum gæfist ráðrúm til að nýta sér hin nýju úrræði til lausnar á skuldavanda heimilanna. Mun þessi frestur renna sitt skeið hinn 31. þessa mánaðar.

Hinn 1. ágúst tóku gildi ný lög um greiðsluaðlögun einstaklinga og umboðsmaður skuldara tók þá jafnframt til starfa. Mikið álag hefur verið á umboðsmanni skuldara og eftirspurn eftir þjónustu hans. Ljóst er að nokkra mánuði getur tekið fyrir umboðsmann skuldara að vinna úr þeim umsóknum sem honum berast. Í frumvarpi þessu er lagt til að framlengt verði tímabilið sem einstaklingar geta óskað eftir þriggja mánaða fresti á nauðungarsölu um fimm mánuði eða fram til 21. mars 2011. Má gera ráð fyrir að framlenging þessa úrræðis muni að einhverju leyti létta álagi á umboðsmanni skuldara auk þess sem fresturinn nýtist einnig þeim sem þurfa skjól fyrir nauðungarsölu á meðan þeir leita samninga við kröfuhafa sína t.d. á grundvelli þeirra úrræða sem fjármálafyrirtækin bjóða upp á.

Rétt er að taka fram að eins og áður er fresturinn ekki sjálfkrafa heldur verður gerðarþoli að óska eftir honum við sýslumann. Frestinn má veita til allt að þriggja mánaða og hann er veittur einu sinni á því stigi nauðungarsölu þegar ákveða á hvenær lokasala fari fram eða á lokasölunni sjálfri hafi sá dagur verið ákveðinn. Sömu skilyrði eru fyrir því að unnt sé að fresta nauðungarsölu og áður hafa verið, þ.e. að um sé að ræða fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Ég legg áherslu á að tilgangurinn með þessum fresti er að veita skuldara skjól fyrir nauðungarsöluaðgerðum á meðan hann leitar lausna á skuldavanda sínum, hvort sem hann gerir það með aðstoð umboðsmanns skuldara eða leitar sjálfur beint til kröfuhafa sinna. Vil ég hvetja skuldara til að nýta þennan frest og hafa samband við umboðsmann skuldara og fá þar skoðun á fjármálum sínum eða leita beint til kröfuhafa sinna og fá upplýsingar um þau úrræði sem þar eru í boði og mat á því hvort þau henti til lausnar á vanda viðkomandi.

Hæstv. forseti. Ég hef reifað efni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.