139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

nauðungarsala.

58. mál
[11:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar og það að hann sé að ganga eftir þeim. Upplýsingar eru lykilatriði til að ná árangri í þessum málum. Ég er ekki í neinum vafa um að ráðherrann er þar með opinn faðminn.

Það blasir við að allt of margt fólk þarf að ganga þá píslargöngu sem nauðungarsala á íbúðarhúsnæði manns eða fjölskyldu er. Við hljótum að þurfa að huga að því hvort við getum á einhvern hátt létt fólki þennan erfiða leiðangur eins og við höfum tekið afstöðu gagnvart fyrirtækjunum um að endurskipuleggja skuldir þeirra en láta menn ekki ganga píslargöngu leiðina á enda. Það er eðlilegt að spurt sé um frumvörp eins og hið svonefnda lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur, sem gerir ráð fyrir að þeir sem eftir hrunið eru með eignir sem þeir ráða ekki við, geti einfaldlega skilað veðlánahöfum eignum sínum. Hugmyndir eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað fyrir eru svipaðs eðlis. Það mætti kalla lyklakippumálið. Þeir sem eru komnir í þá stöðu að skuldir þeirra eftir hrun eru langt umfram eignir, geti skilað þeim og verið þá lausir undan öllum veðkröfum. Sér hæstv. ráðherra einhverjar slíkar leiðir til að við fáum skilið við þennan svarta kafla í sögu okkar sem allra fyrst þannig að sem fæstir þurfi að fara þessa erfiðu vegferð sem uppboð á heimilum fólks er? Afleiðingarnar geta verið alvarlegar fyrir fjölskylduna, samheldni hennar, andlegt heilsufar og líkamlegt og jafnvel starfsgetu fólks til framtíðar. Ég er sannfærður um að við, lítil þjóð, höfum ekki efni á að láta þúsundir manna ganga þann veg til enda.