139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma í þessa umræðu við okkur. Skuldavandi heimilanna er einhver mesta vá sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við vitum að um 20% heimila eru yfirveðsett, um 40% fjölskyldna eiga ekki fyrir óvæntum útgjöldum og 50 þús. manns hafa tekið um 42 milljarða kr. út af séreignarsparnaði sínum. Í hvað hafa þessir fjármunir farið? Við hljótum að spyrja okkur að því.

Í bráðum tvö ár hafa stjórnvöld skellt skollaeyrum við tillögum um að fljótvirkasta og réttlátasta leiðin sé almenn leiðrétting á skuldum heimila. Öll heimili urðu fyrir sama forsendubrestinum, sum hver ráða við hann en önnur gera það illa, ekki eða með herkjum.

Í bráðum tvö ár hafa þingmenn Framsóknarflokksins leitt umræðu í þinginu um skuldamál heimilanna. Samhljómur hefur verið með málflutningi okkar og nokkurra þingmanna stjórnarmeirihlutans en lítt höfum við komist áleiðis. Meðal þeirra mála sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram eru þingsályktunartillaga um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila, lögð fram í mars 2009, þingsályktunartillaga um endurreisn íslensku bankanna þar sem m.a. er rætt um afnám verðtryggingar, lögð fram í júlí 2009, þingsályktunartillaga um almenna skuldaleiðréttingu, lögð fram í október 2009, þingsályktunartillaga um vexti og verðtryggingu (hámarkshækkun verðtryggingar), lögð fram í október 2009, frumvarp um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála, lagt fram í febrúar 2010, og í júní 2010 var mælt fyrir þingsályktunartillögu um þjóðarsátt þar sem m.a. er lögð til skuldaleiðrétting.

Frú forseti. Nú bregður svo við að ríkisstjórnin hefur efnt til samráðs um lausn og orðar það þannig að nú verði ekki staðið upp fyrr en endanleg lausn er fundin. Hver sú endanlega lausn er sem stefnt er að liggur ekki fyrir. Það liggur ekki fyrir hvar stjórnvöld ætla að enda þessa umræðu. Öllum má vera ljóst að lagfæring á þeim úrræðum sem þegar eru í boði dugar ekki til.

Viðbrögð stjórnvalda hafa valdið miklum vonbrigðum en ekki síður viðbrögð bankastofnana, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða. Bankarnir voru endurreistir af ríkisvaldinu, einkavæddir þannig að við vitum ekki hverjir eiga þá í raun og veru. Það voru skattpeningar okkar þegnanna sem fóru í að endurreisa bankakerfið og jafnvel var rætt um að ríkissjóður þyrfti að leggja þeim til að auki 100 milljarða ef gengislánadómurinn félli þeim ekki í vil.

Lífeyrissjóðirnir eru sjóðir okkar allra, líka þeirra sem eru skyldugir til að greiða í þá af launum sínum áður en dregið er af þeim til að greiða af láninu sem lífeyrissjóðurinn lánaði og tók stökkbreytingum í hruninu. Lífeyrissjóðirnir fá greitt iðgjaldið áður en launþeganum er skömmtuð framfærslan. Lífeyrissjóðir landsmanna hafa skert lífeyrisgreiðslur vegna fjárfestinga sem þeir töpuðu milljörðum á og fitnuðu svo í verðbólgunni meðan hún át eigið fé flestra sem greiða í sjóðina.

Við talsmenn almennrar leiðréttingar höfum margsagt að tillögur okkar séu ekki meitlaðar í stein en forsendan hlýtur að vera sú að viðurkenna að öll heimili urðu fyrir forsendubresti.

Frú forseti. Mikilvægasta verkefni okkar er að koma heimilum landsins í skjól og atvinnulífinu á skrið. Ég óttast að ríkisstjórnin sem nú situr ráði við hvorugt. Ég óttast að það samráðsferli, sem svo er kallað, verði ferli í leit að réttlætingu fyrir því að ekki verði farið í sanngjarna leiðréttingu á skuldum heimilanna.

Ljóst er að ríkisstjórnin hefur tapað dýrmætum tíma til að leiðrétta skuldir heimilanna. Á þeim tíma hafa margir misst heimili sín og/eða flust úr landi og við munum ekki koma Íslandi af stað, frú forseti, með því að láta heimilin bera þungann af þeim fjármálaæfingum sem hér voru stundaðar. Heimilin þurfa að vera virkur þátttakandi í efnahagslífinu og því verður að gera þeim kleift að vera það. Fæst heimili tóku þátt í einhverjum óeðlilegum æfingum með fjármuni sína og því er rangt að láta fjölskyldurnar og skyldmenni þeirra taka á sig sóðaskap fjármálafyrirtækjanna.

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn munum leggja á morgun inn á borð forsætisráðherra það sem við köllum samvinnuráð um þjóðarsátt. Þetta eru heildstæðar tillögur sem við vonum að teknar verði alvarlega og skoðaðar. Við höfum áður lagt þetta fram og kynnt í þinginu en vonum að nú verði tillögur okkar teknar alvarlega. Þær eiga fullt erindi enn þá inn á þetta borð og ég vona svo sannarlega að nú verði hlustað.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra deilir væntanlega áhyggjum okkar af skuldum heimilanna, það mun örugglega koma fram hér á eftir. Hæstv. ráðherra er nýkominn í ríkisstjórn sem hingað til hefur boðið upp á lausnir sem ekki hafa dugað. Við hljótum að vona að með tilkomu hans í ríkisstjórn verði þar breyting á.

Frú forseti. Það er löngu kominn tími til að tekið verði föstum tökum á þeim mikla vanda sem heimilin á Íslandi eru í. Við getum ekki sætt okkur við að fjármagnseigendum sé borgið en ekki heimilunum. (Gripið fram í.)