139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[13:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu því að við sjáum nú þegar að þær sértæku leiðir sem átti að nýta til að leysa skuldavanda heimilanna duga ekki til. Reyndar má segja að það sem komið hefur á daginn hafi allt verið fyrirsjáanlegt eins og bent var á á sínum tíma. En það eru ekki einungis þessi praktísku atriði, það eru líka sanngirnisatriði. Þess vegna komum við alltaf aftur að þessu með almennu aðgerðirnar og nauðsyn þeirra. Það er bæði spurning um praktíska lausn vandans og sanngirnina.

Nú er mikið talað um að fyrst og fremst eigi að aðstoða þá sem mest þurfi á því að halda, sem séu í mestum erfiðleikum, og auðvitað hljómar það vel. En undirliggjandi í þessum málflutningi er að eingöngu verði komið til móts við þá sem eru í mestum erfiðleikum því að þannig hefur það verið. Það hefur verið búinn til mjög óheppilegur öfugur hvati. Einungis þeir sem eru komnir í algert þrot fá einhverja aðstoð vegna þess að enginn hvati er til staðar til að vinna sig út úr vandræðunum. Menn eru þvert á móti settir í þá stöðu að þurfa að komast í algert þrot til að fá einhverja aðstoð. Það er ekki leið sem dugar.

Ég er mjög ánægður að heyra hæstv. ráðherra taka undir að ræða þurfi þessi mál í samhengi við atvinnumálin og fagna því mjög. Raunar voru ýmsar yfirlýsingar hæstv. ráðherra áðan til þess fallnar að auka heldur á bjartsýni á að menn færu í að leysa úr þessum málum. En það verður samt að hafa í huga, af því að hér er mikið talað um samstarf og að allir þurfi að komast að sameiginlegri niðurstöðu, að það er alls ekki víst að það takist. Það er í rauninni alls ekki víst að það takist að fá alla með í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. Þá kemur að ríkisstjórninni. Hér er þrátt fyrir allt ríkisstjórn sem fer með völdin í landinu. Það getur komið að því að ríkisstjórnin þurfi að taka af skarið og segja hvernig hlutirnir eigi að vera, taka af skarið (Forseti hringir.) og leysa vandann.