139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna.

[14:02]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu þó að ég verði að viðurkenna að ég er pínkulítið hugsi yfir því sem hér hefur verið sagt. Á ég að skilja þetta þannig að viðkomandi aðilar hafi verið að biðja okkur um að hætta að tala við stjórnarandstöðuna, fara heim, koma með tillögur og leysa málið? Þannig talar Hreyfingin. Gerið þið þetta strax, eftir hverju eruð þið að bíða, af hverju ákveðið þið þetta ekki? Þið lögðuð ekki fram neinar tillögur.

Ríkisstjórnin er að viðurkenna að við vorum ekki sérstaklega skólagengin til að taka við 40% tekjufalli ríkissjóðs, til að taka við hruni heils samfélags. Það getur vel verið að það sé minna en 18 mánaða verkefni, það hefur ekki tekist að fullu. Við ætlum að halda áfram, við erum að leita lausna og vinna að þeim og við biðjum alla um að koma að borðinu. Þá segja menn: Við ætlum ekkert að fara að vinna í því.

Ég skil þetta ekki þannig þó að menn hafi sagt þetta svona, því að menn hafa sýnt annað við borðið með okkur. Hv. málshefjandi hefur verið einn af þeim sem hafa talað hvað mest fyrir lausnum og ég vil trúa því, eins og ljóst var eftir fundinn í gær, að allir sem koma að vandanum vita að hverju þeir stefna. Það hefur verið ljóst frá upphafi, hv. þm. Þór Saari.

Hagsmunir okkar eru að verja heimilin, tryggja að fólk geti búið á heimilum sínum, annaðhvort í eigin eigu eða til leigu, að leigan eða húsnæðisgreiðslurnar séu ekki hærri en u.þ.b. 30% af ráðstöfunartekjum. Við vitum alveg hvað er við að eiga. Við höfum aftur á móti ekki haft tæki eða tól vegna lagasetningar undanfarinna áratuga, sem menn verða þá að axla ábyrgð á, og við höfum ekki getað breytt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar í skyndingu.

Við glímum við þennan vanda. Við ætlum ekki að leysa hann í dómstólum næstu 40 árin, við ætlum að leysa hann hér og nú. Til þess þarf samkomulag og allar hugmyndir eru uppi á borðinu og þar hafa þær verið allan tímann. En það þjónar hagsmunum sumra að láta alltaf eins og þeir hafi ekkert komist að borðinu. Allar þessar hugmyndir hafa verið ræddar en nú eru þær að komast til raunverulegrar ákvörðunartöku. Ég skora á ykkur alla að standa með okkur í því. (Gripið fram í.) Ja, ef þú ætlar að gefast upp eftir 18 mánuðina og hætta þá, hv. þingmaður, skaltu láta okkur vita af því. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að hætta. (Gripið fram í.)