139. löggjafarþing — 11. fundur,  14. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[14:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi viðbrögð hv. þingmanns og formanns félags- og tryggingamálanefndar. Ég held að það sé afskaplega vel til fundið að kalla þessa aðila til eftir tvær til þrjár vikur og sjá hvernig gengur.

Við verðum að horfast í augu við að mjög margt fór miður fyrir hrunið en það er líka orðið alveg ljóst að stjórnmálamenn hafa brugðist eftir hrunið. Stjórnmálamenn hafa brugðist þegar kemur að atvinnumálum og hafa brugðist þegar kemur að því að vinna vel þau úrræði sem öllum stjórnmálamönnum var falið að vinna að eftir kosningarnar sem voru fyrir einu og hálfu ári.

Það er enginn vafi í mínum huga að þeim orðum sem flestir nota um vönduð vinnubrögð þingsins hefur ekki verið fylgt eftir í verki. Við verðum að horfast í augu við það og laga. Ég held að þessi umræða, þessi orðaskipti, séu gott dæmi um að menn geti rætt hlutina málefnalega og æsingalaust. Oft er haft á orði að hér sé óttalegur hanaslagur og menn séu fastir í skotgröfum en þau stuttu orðaskipti sem hér hafa átt sér stað eru ekki dæmi um það. Það er stór munur á því sem er að gerast hér eftir hádegi og því sem gerðist fyrir hádegi því að þau orðaskipti sem ég átti við hæstv. ráðherra í morgun ollu mér miklum vonbrigðum. Mér fannst eins og hæstv. ráðherra vildi ekki horfast í augu við það að þau úrræði sem við höfum unnið að hafi ekki náð tilætluðum árangri og að það þýddi ekki fyrir okkur stjórnmálamenn að benda á aðra.

Þetta gefur vonandi tóninn fyrir breytt og bætt vinnubrögð. Ég heiti á okkur öll að stuðla að því. Ég vek athygli á því að það sem hv. félags- og tryggingamálanefnd er að gera núna er ekki gert alla jafna og það er vel. Ég þakka hv. þingmanni og formanni (Forseti hringir.) fyrir að taka svona vel í tillögu mína og ætla að framkvæma hana.