139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

tilkynning um heiðursviðurkenningu Blindrafélagsins.

[15:03]
Horfa

Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti skýra þingheimi frá því að á föstudaginn, á degi hvíta stafsins, tók forseti Alþingis við heiðursviðurkenningu Blindrafélagsins, samfélagslampanum 2010.

Hann er veittur Alþingi fyrir, eins og þar segir, „farsæl og fagleg vinnubrögð sem leiddu til góðrar samstöðu við stefnumótun og undirbúning lagafrumvarps um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, sem samþykkt voru sem lög frá Alþingi Íslendinga 18. desember 2008“.

Lampanum hefur verið komið fyrir í efrideildarsalnum gamla, ásamt heiðursskjali. Lampinn er fallegur gripur, handsmíðaður af Sigmari Ó. Maríussyni gullsmíðameistara. Hann er úr skagfirsku blágrýti með upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins.

Alþingi þakkar þessa viðurkenningu og óskar Blindrafélaginu heilla í störfum sínum í framtíðinni.