139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

lausnir á skuldavanda heimilanna.

[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur um fátt annað verið rætt, bæði á þinginu og í fjölmiðlum, en skuldavanda heimilanna og þær hugmyndir sem eru til úrvinnslu í ríkisstjórninni í sérfræðingahópi hennar. Á meðan á þessari umræðu hefur staðið hafa komið afskaplega misvísandi skilaboð frá einstökum ráðherrum. Ég vil bera undir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann gæti hjálpað okkur að skýra línur eitthvað í þessum efnum, hvaða tillögur það eru sem nú er verið að reikna út — talað er um að það séu átta eða níu mismunandi leiðir sem verið er að reikna út af sérfræðingunum — og eins hvort hæstv. ráðherra, sem á sínum tíma var hæstv. félagsmálaráðherra og lagði á þeim tíma fyrir þingið hugmyndir til að koma til móts við þá sem í mestum vanda voru staddir, en þau úrræði hafa reynst vera ófullnægjandi, gæti varpað einhverju ljósi á afstöðu sína og eftir atvikum stjórnarinnar til almennra leiðréttinga á skuldum. Það hefur að sjálfsögðu vakið athygli að þar tala ráðherrarnir hver með sínu nefi, ýmist þannig að það sé augljóslega nauðsynlegt að fara í almenna skuldaleiðréttingu höfuðstóls eða algerlega útilokað. Ég hygg að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé í hópi þeirra sem hafa efasemdir um að það sé skynsamlegt.

Nú er kominn tími til að við förum að fá skýrari línur í þinginu um það hvert stjórnin vill fara. Það er um þetta tvennt sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra, annars vegar hvað er verið að reikna og hvaða augum hann lítur þessar hugmyndir um almennu niðurfærsluna.