139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

lausnir á skuldavanda heimilanna.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvelt að taka undir með hæstv. ráðherra þegar hann segir að við þurfum að geta sagt að allt hafi verið gert. En það er einmitt það sem ríkisstjórnin sagði fyrir um það bil hálfu ári, að hún hefði þá þegar gert allt sem hægt var að gera og það sem þyrfti að gera. Nú er verið að reikna. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að ekki skuli hafa verið reiknað fyrr. Hvernig stendur á því að þingið er núna í þeirri stöðu, tveimur árum eftir hrunið, að menn hafi ekki fullnægjandi yfirsýn yfir skuldastöðu heimilanna? Hvernig má það vera að við séum nú haustið 2010 að velta því fyrir okkur hver skuldastaða heimilanna er og greiðslugeta þeirra? Það er augljóst að það þarf í fyrsta lagi að lækka greiðslubyrði þeirra sem eru alveg að drukkna, sem eru með vatnið upp að neðri vör. Það þarf í öðru lagi augljóslega að laga greiðsluaðlögunarúrræðin og gera þau skilvirkari, ekki senda menn í gegnum þau svipugöng sem það er að fara til umboðsmanns skuldara. Í þriðja lagi þurfa þeir einfaldlega að gera það upp við sig hvort þeir eru tilbúnir til að verja tugum milljarða til að taka á sig flatar afskriftir. (Forseti hringir.) Og ég heyri ekki annað en ráðherrann sé þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt. En þá vaknar sú spurning: Hvað kostar greiðsluaðlögunin ríkissjóð í gegnum Íbúðalánasjóð, greiðsluaðlögunin (Forseti hringir.) sem felur í sér skuldaniðurfellingu? Hefur einhver haft fyrir því að reikna það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar?