139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auknir skattar á ferðaþjónustu.

[15:20]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem hér var komið inn á eru atriði sem eru meira á borði samgönguráðherra en mínu. En ég sá sömu frétt og hv. þingmaður í gær varðandi viðbrögð Icelandair-manna við þeim breytingum sem fram undan eru á því sviði og ég hef afráðið að kalla þá til mín til fundar og fara yfirvegað yfir málin, þannig eigum við að bregðast við þessu. Ég mun auðvitað skoða málið vel í heildarsamhengi. Ég er nú að leggja lokahönd á nýja ferðamálaáætlun til næstu þriggja ára og í henni gerum við ráð fyrir því að ferðaþjónustan verði efld og styrkt allverulega, en það er ekki nóg. Við munum að sjálfsögðu ráðast í heilmikið markaðsátak vegna þess að við viljum a.m.k. halda í horfinu varðandi þann fjölda farþega sem hingað hefur komið undanfarið en við þurfum líka að fara í heilmikla uppbyggingu innan lands og það er alveg klárt mál að það mun líka kosta fjármuni.

Við þurfum að fara í uppbyggingu innan lands til að fjölga ferðamannastöðum, við þurfum að fara í uppbyggingu til þess að dreifa ferðamönnum betur yfir árið, við þurfum að fara í uppbyggingu til þess að dreifa ferðamönnum betur yfir landið í heild sinni. Alla þá hluti erum við að skoða núna í tengslum við nýja ferðamannaáætlun og það er von mín að niðurstöður verði komnar á næstu vikum. Um leið hljótum við að skoða það atriði sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, og svo ég ítreki það enn og aftur mun ég fara yfir málið með yfirveguðum hætti í víðu samhengi.