139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

skipulagsmál í Suðurkjördæmi.

[15:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra virðist hafa tekið upp nýtt áhugamál eftir að hún settist í ráðuneyti umhverfismála, það virðist ganga út á að safna sem flestum aðalskipulögum, sérstaklega frá okkur í Suðurkjördæmi. Það vill vera þannig, eins og við þekkjum frá frímerkjasöfnurum, að menn vilja hafa sem mest úrval og við í Suðurkjördæmi sitjum nú uppi með að óvissa ríkir varðandi afgreiðslu skipulags Ölfuss. Við erum að bíða eftir upplýsingum frá dómstólum um hvernig ætlunin er að meðhöndla aðalskipulag Flóahrepps. Við bíðum líka spennt eftir upplýsingum varðandi Skeiða- og Gnúpverjahrepp og síðan tengist skipulag Ölfuss þeim framkvæmdum sem þegar eru fyrirhugaðar í Helguvík.

Ég kem sérstaklega hingað upp vegna þess að ég hef fengið upplýsingar, og það kom fram í grein sem hæstv. ráðherra skrifaði nýlega í Fréttablaðið, um að ætlunin væri að hafna breyttri veglínu í Mýrdalshreppnum á Suðurlandsveginum, að vísa veglínumálinu í hérað en samþykkja aðalskipulagið öðru leyti. Menn í héraði bíða mjög spenntir eftir því að fá formlegt bréf frá ráðherranum þannig að þeir geti tekið skipulagið upp aftur og sent það aftur til ráðuneytisins þar sem ráðherrann getur bætt við nýrri útgáfu af skipulaginu í safnið hjá sér.

Það sem ég hefði áhuga á að heyra um frá ráðherranum er hvort viðkomandi bréf sé farið í póst, og ef ekki, hver sé ástæðan fyrir því.