139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samskipti skóla og trúfélaga.

[15:35]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra fylgir þeirri reglu og viðmiðum sem lagt hefur verið upp með undanfarin ár og það er bót.

Það er engin spurning að það skiptir miklu máli að það sé opin leið fyrir börnin í landinu að kynna sér ýmsa þætti í mannlífi og okkar arfleifð. Þar eru kirkjan, trúin og trúfélög snar þáttur og þess vegna er það eðlilegt.

Með leyfi virðulegs forseta segja tveir prestar í Fréttablaðinu í dag, Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir, í grein að það sé mikilvægt við þessa umræðu að hafa nokkur atriði í huga:

„Hlutleysi í trúmálum þýðir ekki algjöra fjarveru veruleika og menningar trúariðkunar eða lok samstarfs kirkju og skóla. Mannréttindastefna sem byggir á trúfrelsi og virðingu fyrir ólíkum trúarskoðunum fólks krefst þess ekki að opinbert rými og samfélagslegt starf sé gersneytt af trúarlegum minnum.“

Þetta skiptir máli og þess vegna er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra tekur ekki undir það yfirboð sem mannréttindaráð Reykjavíkur er að boða.