139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:51]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á málefnum háskólanna. Ég tel að það sé tímabært, við höfum gefið menntamálunum of lítinn gaum í umræðunni um endurreisn samfélagsins því að leiðin út úr kreppunni liggur ekki síst í gegnum menntunina.

Undanfarinn áratugur hefur einkennst af vaxandi samkeppni milli opinberu háskólanna og einkaskólanna hér á landi, sérstaklega Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Á niðurskurðartímum þurfum við hins vegar að skapa skilyrði fyrir nánari samvinnu skólanna og sú vinna er sem betur fer hafin. Það má t.d. spyrja sig: Hvers vegna skyldu nemendur í lögfræði eða viðskiptafræði ekki geta sótt námskeið bæði sjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, allt eftir áhugasviði og sérhæfingu hvers og eins? Ljóst er að gjaldtakan, skólagjöldin í Háskólanum í Reykjavík, eru þar ákveðinn þrándur í götu nánara samstarfs á þeim nótum. Kannski þurfum við að hefja umræðu um hvort rétt og eðlilegt sé að samræma gjaldtökuna í þessum tveimur skólum, t.d. þannig að í grunnnáminu séu engin skólagjöld en í meistara- og doktorsnámi verði tekin upp hófleg skólagjöld, sérstaklega í greinum þar sem sýnt þykir að framhaldsmenntun sé ávísun á hálaunastörf í framtíðinni. Kjarni málsins er þessi: Við þurfum að skipuleggja háskólana út frá þörfum nemendanna í landinu en ekki út frá hagsmunum þeirra stofnana sem hýsa starfið sem þar fer fram.

Virðulegi forseti. Við þurfum að hugsa háskólana í landinu sem samstarfsaðila en ekki keppinauta og því er stefnumörkun hæstv. menntamálaráðherra um samstarfsnet háskólanna afar mikilvæg. Við þurfum líka að þora að forgangsraða í ríkari mæli, tengja betur saman háskólastarf og nýsköpun, ekki síst á sviðum sem eiga mesta möguleika til vaxtar í samfélagi okkar. Tökum sem dæmi hugverkageirann á Íslandi, geiri sem skilar 21% af útflutningstekjum þjóðarinnar og skapar 8 til 9 þús. störf hér heima, en í þann geira vantar þúsund nýja starfsmenn á hverju ári til að uppfylla spurn eftir nýju vinnuafli. Þetta fólk liggur ekki á lausu á Íslandi. Við þurfum því að tryggja nægt framboð sérstaklega á verk- og tæknigreinanámi (Forseti hringir.) til að svara þessari eftirspurn stærsta vaxtargeira íslensks atvinnulífs eftir vinnuafli.