139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér málefni háskólanna. Ég þakka framsögumanni sem og ráðherra fyrir það innlegg sem þær komu með. Þessi málefni eru okkur afar mikilvæg og einkar mikilvæg nú þegar við horfum til endurreisnar og uppbyggingar íslensks samfélags.

Við hagræðingarkröfu í fjárlagafrumvarpinu eru bein framlög til háskóla lækkuð um 8% hjá opinberum háskólum, 9% hjá einkareknum háskólum og 5% hjá Listaháskólanum. Þessi niðurskurður háskólanna endurspeglast síðan í reiknilíkani þeirra og leiðir til þess að ódýrasti reiknilíkanaflokkurinn hækkar, þ.e. nám á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði og lögfræði og annað sambærilegt nám, en aðrir reikniflokkar lækka um 7–12% og þar verða raunvísindin, verk- og tæknigreinar afar illa úti. Ég tel að þessu þurfi að breyta vegna þess að við munum byggja á þeim greinum til framtíðar í endurreisn og uppbyggingu samfélagsins, við byggjum á tæknigreinunum, verkmenntuninni, heilbrigðisvísindunum og því sem við erum þegar góð í.

Hæstv. ráðherra hefur boðað endurskoðun á reiknilíkaninu, sem er gott og ég fagna því, en hún hefur jafnframt sagt að endurskoðun á reiknilíkaninu kunni að hafa áhrif á einstaka flokka en ekki heildarframlög til kennslu í hverjum skóla því að þar ráði háskólarnir för.

Við vitum að tæknigeirinn þarf miklu fleira fólk en við höfum hér. Þar sitja erlendir starfsmenn í stað okkar Íslendinga. Við þurfum að breyta þessu. Hugmyndin um verðmætasköpun á grunni þekkingar er afar dýrmæt þegar horft er til framtíðar og endurreisnar samfélagsins og atvinnulífsins í landinu. Þess vegna er fullt tilefni til að efla eftir megni nám í þeim greinum sem skila okkur mestu í uppbyggingu og endurreisn samfélagsins.

Frú forseti. Nú þarf djörfung og dug. Ég skora því á rektora háskólanna að hafa það í huga þegar þeir úthluta heildarframlögum til skólanna hvar þeir úthluta (Forseti hringir.) og hvert þeir úthluta.