139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[16:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu, mér finnst hún vera vísbending um að þingheimur vilji vinna saman að öllu þessu máli.

Til að leiðrétta ákveðinn misskilning: Já, það er rétt og við tökum öll undir að grunnháskólanám hefur verið eflt hér á landi, það er mun fjölbreyttara nú en áður. Meistaranámið hefur líka þurft að efla því að ekki komast allir Íslendingar utan í framhaldsnám. Það er rétt að draga fram að Íslendingar eru nú með langhæsta hlutfallið af nemum í útlöndum. Við erum til að mynda með 10% af okkar háskólanemum á erlendri grundu miðað við Dani t.d. sem eru með innan við 2%. Við höldum því áfram að senda fólkið okkar út af því að það ætlum við að gera.

Ég vil sérstaklega gefa menntamálaráðherra prik fyrir svör hennar og viðleitni til að efla allt háskólakerfið og líka ákveðnar áherslur sem hafa komið fram í gegnum fjárlagafrumvarpið í þá veru að efla háskólamálin í heild. Ég vil hins vegar hvetja hana til að halda þessum tón, þ.e. skilaboðunum sem koma héðan frá þinginu. Við öll, alveg örugglega í stjórninni en líka í stjórnarandstöðu, erum tilbúin í róttækar breytingar. Við erum tilbúin til að stíga nokkur skref í þá átt að tala um erfið og viðkvæm mál, t.d. gjöld á háskólastigi og hvernig við ætlum að efla gæðakröfurnar. Hvernig gerum við það? Eigum við að fara í takmarkanir á háskólastigi eða eigum við að fara aðrar leiðir?

Ég held að við, þingheimur, höfum tækifæri núna til að sýna að við getum alla vega í einhverju máli tekið höndum saman nokkuð ágreiningslaust til að efla íslenskt menntakerfi. Við vitum að ef við gerum það þá eflum við íslenskt samfélag.