139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

atkvæðagreiðsla á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

52. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þann 28. júlí sl. sat fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hjá í atkvæðagreiðslu um þá yfirlýsingu að það teldist til mannréttinda að allir hefðu aðgang að hreinu drykkjarvatni. Í tillögunni var hvatt til þess að ríki og alþjóðastofnanir mundu útvega fjármagn og fleira í þeim dúr, einkum til þróunarríkja, í því skyni að útvega fólki hreint og aðgengilegt drykkjarvatn og hreinlætisaðstöðu. Það var fulltrúi Bólivíu hjá Sameinuðu þjóðunum sem talaði fyrir tillögunni og var í henni vakin athygli á því að þrátt fyrir ásetning Sameinuðu þjóðanna um að tryggja mannkyninu aðgang að hreinu vatni — það yrði að ganga í gildi fyrir 2015. Það var líka bent á að nú um stundir hafa um 900 milljónir manna ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og yfir 2,6 milljarða manna skortir aðgang að lágmarkshreinlætisaðstöðu. Í tillögunni var jafnframt lýst yfir áhyggjum af því að árlega deyr ein og hálf milljón barna yngri en fimm ára úr sjúkdómum sem tengjast drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu. Þetta er mannréttindamál og Ísland hefur nú verið framarlega í mannréttindamálum hingað til. Þess vegna undruðust margir þegar fulltrúi Íslands sat hjá í þessu mikla mannréttindamáli.

Ísland skipaði sér í hóp 41 ríkis sem sat hjá og þar af voru 16 ESB-ríki en athygli vakti að Finnland og Noregur samþykktu tillöguna.

Það kom svo sem ekki í ljós hvað olli því að Ísland skipaði sér í flokk þeirra ríkja sem sátu hjá, en í fjölmiðlum þann 29. júlí sagði Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, að hún gæti ekki tjáð sig um afstöðu stjórnvalda þar sem rökin lægju ekki fyrir. Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra:

Hver ákvað að fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sæti hjá við atkvæðagreiðslu um ályktunartillögu um að aðgangur að hreinu vatni teljist til mannréttinda?

Var búið að ræða málið í utanríkismálanefnd áður en til atkvæðagreiðslunnar kom?

Er ekki líklegt að ímynd Íslands sem ósnortins, hreins lands skaðist við þessa ákvörðun?

Var þarna um að ræða stefnubreytingu hjá íslenskum stjórnvöldum í þessum málaflokki?