139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

atkvæðagreiðsla á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

52. mál
[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er. Ég get fallist á að vel sé hægt að segja að þessi atkvæðagreiðsla og sú afstaða Íslands sem birtist í henni orki tvímælis. Ég hef skýrt ástæðurnar fyrir henni og skiptir engu máli þótt einhver 16 ESB-ríki hafi farið sömu leið, það voru 11 önnur sem greiddu atkvæði með tillögunni og höfðu ekkert með þetta að gera. Það gleður mig hins vegar að hv. þingmaður skuli vera kominn á sömu skoðun og ég og þeir sem börðust hér hatrammri baráttu gegn forustu Framsóknarflokksins í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar. Eins og menn muna var það Framsóknarflokkurinn sem ætlaði hér allt (Gripið fram í.) um koll að keyra í þinginu, hélt því í gíslingu hér vikum saman til að ná því fram að hægt væri að einkavæða vatnið. Þessi ríkisstjórn (Gripið fram í.) og reyndar ríkisstjórnin á undan henni líka hafa eytt miklum tíma í að reyna að vinda ofan af þessari vitleysu. Hv. þingmaður getur svo komið hingað og haldið því fram að einhver fiskur sé grafinn undir steini í þessum efnum hjá mér og skoðanasystkinum mínum. Mig skiptir það engu máli og ég hirði lítt um það.

Það liggur algjörlega tært og skýrt fyrir að þessi ríkisstjórn telur að vatn sé mannréttindi, ekki bara í sjálfu sér heldur sé það forsenda annarra mannréttinda. Engin ríkisstjórn önnur en sú sem tók við völdum sem minnihlutastjórn 1. febrúar hefur haft þá afstöðu. Hv. þingmaður getur síðan komið og sungið hér eins og næturgali um eitthvað allt annað, en við breytum ekki þeirri staðreynd að þetta er afstaða (Gripið fram í.) ríkisstjórnarinnar og það breytir heldur ekki þeirri staðreynd að flokkurinn (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður tilheyrir barðist hér eins og naut í flagi fyrir því að einkavæða vatnið. Það er von að hv. þingmaður skammist sín fyrir þá fortíð og hugsanlega er þetta einhver tilraun til að breiða yfir hana. Ég hef trú á Framsóknarflokknum. Mér finnst hann satt að segja fara dagbatnandi. En spurningunum fjórum er öllum svarað.