139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

ný grundvallarstefna Atlantshafsbandalagsins.

62. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég get glatt hæstv. utanríkisráðherra með því að ég ætla ekkert að ræða Framsóknarflokkinn. (Gripið fram í: Ekki hvað?) Að ræða Framsóknarflokkinn.

Þrátt fyrir að verkefnin innan lands séu ærin og án efa næg fram undan er einnig mikilvægt að við gætum hagsmuna okkar á erlendum vettvangi og ræðum mál sem það snerta. Þess vegna var ég mjög ánægð þegar ég las á Pressunni þá yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra að hann sé í rauninni vakinn og sofinn í að gæta hagsmuna okkar og tryggja öryggishagsmuni okkar, tengsl okkar og stöðu innan Atlantshafsbandalagsins. Ég fagna mjög slíkri yfirlýsingu frá ráðherra í þessari ríkisstjórn.

Atlantshafsbandalagið er nú með grunnstefnu sína í endurskoðun. Ég nota orðið grunnstefnu yfir það sem heitir á ensku Strategic Concept. Síðast var slíkt plagg lagt fram 1999 og hefur ýmislegt breyst í heiminum síðan þá. Markvisst hefur verið unnið að endurskoðun grunnstefnunnar síðan í apríl 2009 þegar hún var tekin til umfjöllunar á leiðtogafundi bandalagsins. Í framhaldinu var settur á laggirnar svokallaður vitringahópur sem fyrrverandi kennari minn, Madeleine Albright, leiddi. Hópurinn skilaði af sér í maí og framkvæmdastjóri bandalagsins mun leggja fram á leiðtogafundi síðar í haust, í nóvember, nýja stefnu fyrir aðildarlöndin til samþykktar. Þar er margt undir, m.a. áherslur bandalagsins næstu árin, hvort sem um er að ræða eldflaugavarnir, málefni norðurslóða eða auðlindamál. Þetta hefur verið mikið rætt. Ég hef þó saknað þess að við höfum ekki rætt þetta hér á þingi, né í utanríkismálanefnd fyrir utan þegar einn svokallaður vitringurinn, Aivis Ronis, kom hingað og átti góðan fund með utanríkismálanefnd 13. apríl síðastliðinn. Þar sem við höfum ekki rætt þetta út frá afstöðu íslenskra stjórnvalda sérstaklega vildi ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hver afstaða ríkisstjórnarinnar sé til nýrrar grundvallarstefnu bandalagsins og hvaða áherslum ríkisstjórn Íslands hefur haldið fram við þessa vinnu. Ég vil kannski líka bæta við spurningu um hvernig hæstv. utanríkisráðherra eða íslensk stjórnvöld hafa beinlínis komið að þessari vinnu.

Ég bætti líka við spurningu um hver mundi sækja leiðtogafundinn í Lissabon. Ég hef reyndar fengið munnlegt svar frá aðstoðarmanni forsætisráðherra sem hringdi í mig sérstaklega til að (Forseti hringir.) segja mér að hæstv. forsætisráðherra ætlaði að fara þannig að ég móðgast ekki við hæstv. utanríkisráðherra ef hann hefur ekki tíma til að svara þeirri spurningu.