139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

ný grundvallarstefna Atlantshafsbandalagsins.

62. mál
[16:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það virðist ætla að verða þannig að við þingmenn Framsóknarflokksins komum hérna í röð og gagnrýnum svör hæstv. utanríkisráðherra. Ég beið einmitt eftir því að heyra svarið við spurningum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Það tók mjög langan tíma að fá það fram þarna í lokin. Síðan hljóp ráðherrann hratt í gegnum helstu punkta varðandi áherslur ríkisstjórnarinnar.

Ef ég skil þetta rétt, varðandi afstöðuna til grundvallarstefnunnar, mun hún koma í ljós þegar forsætisráðherra mætir á staðinn.

Ég hefði gjarnan viljað heyra ráðherrann fara nánar í útfærsluna á áherslum ríkisstjórnarinnar því hann nefndi marga punkta sem mér finnst mjög áhugaverðir, sérstaklega varðandi konur og frið, og siglingar á norðurslóðum. Það þyrfti kannski einnig að fá svör við því hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að sinna skuldbindingum okkar gagnvart NATO, sérstaklega þar sem enn er (Forseti hringir.) mjög mikil óvissa um hvernig sinna eigi verkefnum Varnarmálastofnunar.