139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

ný grundvallarstefna Atlantshafsbandalagsins.

62. mál
[16:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Aldrei slíku vant var ég bara ágætlega sátt við svör hæstv. utanríkisráðherra og ætla nú ekki að taka sérstaklega undir gagnrýni hv. þm. Eyglóar Harðardóttur á þau.

Það sem ég mundi vilja óska núna formlega eftir við hæstv. utanríkisráðherra, þar sem hann nefndi trúnaðinn á þeim drögum sem honum voru kynnt, hvort hægt sé að fara fram á að hæstv. utanríkisráðherra komi á fund utanríkismálanefndar, sem líka er bundin trúnaði, til að fara yfir þá umræðu sem fór fram á fundinum sem hæstv. ráðherra sat í síðustu viku. Ég hef að sjálfsögðu lesið fréttatilkynningar frá fundinum og mér sýnist áherslan hafa verið mikil á hluti sem við höfðum kannski ekki lagt mesta áherslu á, t.d. eldflaugavarnir. Mig langar að vita hvort svo sé, vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því hvernig það er almennt innan bandalagsins, hvernig sú pólitíska skuldbinding sem veitt er á fundum eins og hæstv. ráðherra sat rímar við þær skuldbindingar sem ríkin geta svo gefið fjárhagslega og annað þegar stefnan er framkvæmd. Það er ekki bara á Íslandi sem sú umræða þarf að fara fram. Hún fer fram alls staðar í bandalaginu, hvort ríkin geti uppfyllt þær pólitísku skuldbindingar sem á þau eru lagðar af leiðtogum bandalagsríkjanna.

Ég hef líka mikinn áhuga á að vita hvernig málefni norðurslóða birtast í skýrslunni. Ég vissi að mikið var togast á um það og styrkur yfirlýsingarinnar í grunnplagginu skiptir máli fyrir okkur. (Forseti hringir.) Það skiptir máli fyrir okkur sem erum stuðningsmenn. Þar deili ég skoðun með hæstv. utanríkisráðherra eins og hann sagði áðan. Það skiptir máli (Forseti hringir.) hvernig þeirri stefnu er komið á framfæri í grundvallarplagginu sem bandalagið mun starfa eftir.