139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

öryggi Hvalfjarðarganga.

3. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svör hans. Ég vil gjarnan vísa til greinar sem ég fann í gagnasafni Morgunblaðsins frá því 2006, sem er skrifuð af lögreglumanni búsettum á Akranesi. Hann starfaði þá í lögreglunni í Reykjavík og ók um Hvalfjarðargöngin daglega, Gísli Breiðfjörð Árnason. Hann benti á að mjög mikil umferð væri í göngunum á morgnana frá sjö til níu og að allar þágildandi reglugerðir leyfðu eldsneytisflutninga með annarri umferð. Hann benti líka á að þarna færi strætó á milli sem tæki allt að því 50 farþega. Þá voru farnar fjórar ferðir á milli Akraness og Reykjavíkur og vagnarnir ávallt þéttsetnir af fólki. Í umræddri skýrslu var meðal annars gerð athugasemd við viðbragðshraðann hjá slökkviliðinu. Spölur gerði að vísu athugasemd við það og benti á að í skýrslunni væri bara talað um slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu. En í þessari grein er talað um að það taki slökkvilið Akraness um 16 mínútur að komast í botn Hvalfjarðarganganna.

Gísli spyr: Hvað mundi gerast ef eldur kviknaði í stórri tankbifreið fulllestaðri af bensíni sem staðsett væri ofarlega í Hvalfjarðargöngunum, t.d. að norðanverðu? Ljóst er að logandi bensín í tugum þúsunda lítra mundi renna niður í botn ganganna. Reynslan af eldsvoðanum í Mont Blanc göngunum bendir til að slökkviliðið hafi ekki nema örfáar mínútur til að koma fólki til aðstoðar. Eins og bent var á í niðurstöðum umræddrar skýrslu eru engar flóttaleiðir og enginn neyðarútgangur í göngunum. Það sama á við um Mont Blanc göngin. Þau eru undir stærsta fjalli Evrópu og akstursstefnur eru tvær. Þar voru sett upp neyðarskýli sem eiga að þola mikla elda en í Hvalfjarðargöngunum eru leiðslur og kaplar sem þola ekki eld.

Ég hef mjög miklar áhyggjur af (Forseti hringir.) þeirri áætlun sem Spölur kynnir hér. Hún nær yfir þriggja ára tímabil og við (Forseti hringir.) vitum, eins og oft er sagt, að slysin gera ekki boð á undan sér. Þetta gæti því verið ein leið til að koma til móts við þessa áhættu þar til menn geta gripið til viðameiri aðgerða.