139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

efnahagur Byggðastofnunar.

14. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þá umræðu sem hér hefur orðið. Það sem vekur athygli og er staðfesting á því sem marga grunaði þegar hæstv. ráðherra segir að vegna ákvörðunar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði óhjákvæmilegt að gjaldfæra 700 milljónir til viðbótar í reikningum Byggðastofnunar, sem gerir það í raun að verkum að eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar, sem var áður yfir 8%, en stefnt var að því það að yrði 9–10%, er nú komið niður í 5,18%. Höfum í huga að bankarnir sem verið var að endurreisa eru nú með eiginfjárhlutfall upp á 16–17% og það er talið nauðsynlegt til þess að þeir geti staðið undir lánastarfsemi sinni og bankastarfsemi.

Það er út af fyrir sig fagnaðarefni þegar hæstv. ráðherra segir að stofnunin verði ekki lömuð og það gefur þá væntanlega fyrirheit um að ríkisstjórnin ætli með einhverjum hætti að tryggja að stofnunin geti starfað, þrátt fyrir að hún sé komin með eiginfjárhlutfall niður í 5,18%, sem er miklu lægra en stefnt hefur verið að. Ég man ekki betur en að gengið hafi verið út frá því að eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar þyrfti að vera að lágmarki 8%. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að það mun hafa mikil áhrif á útlánagetu stofnunarinnar, möguleika hennar til þess að lána út, því að eins og hæstv. ráðherra sagði er fært inn í afskriftareikning jafnóðum og útlán eru veitt til þess að mæta mögulegu tapi.

Það er líka mikið umhugsunarefni að sú stjórnsýsla skuli vera viðhöfð að þegar tekin er afdrifarík ákvörðun eins og að fella niður aflamark í rækju, skuli ekki vera hugað að því hvaða áhrif það hefur beinlínis á ríkissjóð og á stöðu einstakra stofnana eins og Byggðastofnunar sem gegnir sínu mikla hlutverki. Ég get ekki sagt annað en að það er til marks um afar slæma stjórnsýslu þegar tekin er ákvörðun af þessu tagi sem kostar hundruð milljóna, (Forseti hringir.) hér um bil einn milljarð, án þess að hugað sé að afleiðingunum fyrir Byggðastofnun og þar með byggðirnar í landinu (Forseti hringir.) og möguleikana á því að veita lánsfé til atvinnulífsins á landsbyggðinni.