139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

viðbrögð fjölmiðla við athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.

35. mál
[17:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Einn af þeim þáttum sem rannsóknarnefnd Alþingis beindi sjónum sínum að voru fjölmiðlar og atferli og háttsemi þeirra í aðdraganda hrunsins. Margt athyglisvert kemur fram í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og ég vil vitna aðeins í hana, en þar er dregið sérstaklega fram að fjölmiðlar segi okkur oft og tíðum ekki hvað við eigum að hugsa heldur miklu frekar hvað við eigum að hugsa um, þannig að þeir stýra mjög miklu í öllu hugsanaferli okkar. En í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Miklar kröfur eru gerðar til fjölmiðla um virkt aðhald að stjórnvöldum og öðrum valdaöflum í samfélaginu, svo sem stórum fjármálafyrirtækjum.“

Síðan segir:

„Miklu heldur blasir við að fjölmiðlar hafi endurómað ríkjandi raddir í samfélaginu. Fjölmiðlum tókst ekki að þessu leyti að sinna aðhaldshlutverki sínu.“

Eftirlitshlutverki fjölmiðla, einu mikilvægasta hlutverki fjölmiðla, var ekki sinnt í aðdraganda hrunsins.

„Það þarf öfluga fjölmiðla til að fara gegn ríkjandi öflum og ríkjandi stemningu.“

Síðan er farið á athyglisverðan hátt yfir ýmsar rannsóknir sem hafa verið gerðar, m.a. á stöðu fréttamiðla í Evrópu, og þar segir:

„Fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið á stöðu fréttamiðla í Evrópu og Bandaríkjunum á undanförnum árum benda til þess að samþjöppun á eignarhaldi, markaðsvæðing og harðnandi samkeppni hafi bitnað harkalega á vandaðri fréttamennsku. Þróunin hefur alls staðar verið sú sama. Áherslan á fréttir sem almannaþjónustu hefur minnkað og áherslan á fréttir sem söluvöru aukist. Þær miða í æ ríkara mæli að því að ná sem flestum áhorfendum/lesendum og vaxandi áhersla er lögð á æsi- og skemmtifréttir. Mál sem eru tímafrek og erfið viðureignar víkja fyrir léttmetinu.“

Síðan er haldið áfram og talað um aðkomu og skoðanir blaða- og fréttamanna og vitnað í kannanir sem undirstrika m.a. sérstaklega að blaða- og fjölmiðlamenn fá ekki lengur sama tækifæri til að sérhæfa sig eða setja sig inn í mál og er þannig gert illkleift að sinna aðhaldshlutverki sínu. Því er ljóst að ýmislegt í vinnuumhverfi blaða- og fréttamanna gerir þeim erfitt fyrir að sinna þessu aðhaldshlutverki sínu og ég tek undir það sem kemur fram í þessari skýrslu.

Ég get líka dregið það fram að ég tel að það hafi verið mikil mistök hjá þinginu að koma ekki frumvarpinu í gegn 2004 eða hvað þá að hafa ekki komið fram því fjölmiðlafrumvarpi sem náðist þó þverpólitísk samstaða allra flokka um 2006. Engu að síður tel ég rétt að spyrja hæstv. menntamálaráðherra, fjölmiðlaráðherrann, hvort hún hafi aflað sér upplýsinga um það hvort þeir fjölmiðlar sem hér starfa hafi rýnt og farið yfir athugasemdir rannsóknarnefndar Alþingis og þá hvernig þeir hafi brugðist við.

Ég held að ástæða væri til að taka sérstaka umræðu um aðkomu Ríkisútvarpsins. (Forseti hringir.) Umfjöllun þess hefur greinilega ekki skorið sig úr umfjöllun einkarekinna fjölmiðla (Forseti hringir.) og vegna þjónustusamningsins sem var (Forseti hringir.) nefndur áðan spyr ég hvort ekki væri einmitt ærin ástæða til að rýna sérstaklega í skýrslu rannsóknarnefndarinnar (Forseti hringir.) í tengslum við endurskoðun á þjónustusamningnum.