139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

viðbrögð fjölmiðla við athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.

35. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki getað lokið svari mínu en svar barst frá einum fjölmiðli enn og það var Útvarp Saga sem nefnir það að útvarpsstöðin hafi ekki verið á meðal þeirra fjölmiðla sem rannsóknarnefndin gat um í skýrslu sinni og bendir á að þar hafi ítarlega verið fjallað um hættuna á bankahruni á árunum 2007 og 2008. Þar hafi verið rætt við fjölmarga sérfræðinga á sviði efnahags- og fjármála sem hafi lesið rétt í ástand mála og bent á aðgerðaleysi þáverandi ríkisstjórnar en hvergi sé um það getið í skýrslunni. Því segist Útvarp Saga ekki hafa ástæðu til að bregðast sérstaklega við umfjöllun og athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.

Þessir fjölmiðlar skiluðu svörum. Við sjáum að þeir hafa margir hverjir brugðist við með innri umræðu sem ég tel vera mjög jákvætt og þarft. Ég vil sérstaklega nefna Ríkisútvarpið af því að það er nefnt hér. Forstöðumaður eða útvarpsstjóri gerði í raun og veru fyrstur manna grein fyrir þeirri umræðu sem fram fór þar innan húss þar sem fréttastofurnar lögðust sérstaklega í það að skoða fréttaflutning sinn á gagnrýninn hátt. Ég vil nota tækifærið og hrósa Ríkisútvarpinu fyrir að hafa farið í þessa gagnrýni á störf sín og skoðað þau með nýjum gleraugum, getum við sagt, þannig að ég lít svo á að Ríkisútvarpið hafi brugðist við þessari gagnrýni.

Mér sýnist líka á svörunum sem við höfum fengið frá þessum sjö fjölmiðlum að margir þeirra hafi skoðað sín störf, ekki síst með því að setja sér nýjar verklagsreglur, siðareglur og skoða hlutina í nýju ljósi en það breytir því ekki að fjárhagslegt umhverfi fjölmiðla á Íslandi er erfitt og það nægir kannski að líta til þeirra nágrannalanda okkar sem eru sambærileg að stærð, að víða er öflugt styrkjakerfi til fjölmiðlunar. Ég get nefnt sem dæmi Noreg, ég get nefnt sem dæmi Lúxemborg sem er 300 þúsund manna samfélag með sjö dagblöð og þar af njóta fimm útgáfustyrkja frá ríkinu, sem lítur á það sem skyldu sína að styrkja með einhverjum hætti sjálfstæða fjölmiðlun í landinu. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að fyrir utan það að styrkja öflugt almannaútvarp þá ætti til lengri tíma litið (Forseti hringir.) að skoða hvort stjórnvöld eigi að hafa einhverja slíka stefnu í fjölmiðlamálum.