139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samvinna mennta- og menningarstofnana á Suðurlandi.

36. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör sem mér fannst góð og nokkuð ítarleg. Það er alveg rétt, það var kannski ekki alveg réttilega orðað í fyrirspurn minni varðandi menningarstofnanir heldur er um að ræða ótrúlega blómlegt menningarlíf sem ríkið og ríkisvaldið kemur með einum eða öðrum hætti að í formi menningarsamninga, setra o.s.frv. Ég held að það skipti miklu máli að öll ráðuneytin og ekki síst mennta- og menningarráðuneytið sem að mínu mati hefur verið aflvaki á síðustu árum og áratugum í því að halda uppi öflugri og blómlegri byggð. Að mínu mati hefur ekkert ráðuneyti staðið sig jafn vel í því að styrkja byggðina í landinu á oft og tíðum mjög erfiðum tímum. Við gerum það með því að stuðla að aukinni fræðslu, aðgengi að menntun, aðgengi að menningu og þannig styrkjum við innviði samfélagsins. Við eigum því að nýta þau tækifæri sem gefast með auknum samgöngubótum, tækniþekkingu o.s.frv. til að sjá hvað hægt er að gera á því sviði sem hvert ráðuneyti hefur yfir að ráða.

Ég fagna því sérstaklega hversu mikla framsýni og víðsýni menntamálaráðherra sýnir með því að halda þessum möguleikum opnum. Ég tel mikilvægt að þessu samtali um aukið samstarf ekki síst á sviði menntastofnana, framhaldsskóla eða framhaldsdeilda verði haldið áfram. Rétt er að undirstrika svo menn fari ekki að misskilja það að við erum ekki að tala um að stofna nýjar sjálfstæðar stofnanir með framhaldsdeildum heldur að nýta möguleika á tækni- og samgöngutengingum inn í þá skóla sem fyrir eru, hvort sem er á Suðurland eða í Vestmannaeyjum. Við viljum að börnin okkar fái sem flest tækifæri til að vera og læra heima ef þau kjósa svo, en ég kem að því í næstu fyrirspurn að ég vildi svo gjarnan að börnin okkar um allt land hefðu sömu tækifæri til að velja hvaða skóla sem er á framhaldsskólastigi en það er umræða sem bíður þar til á eftir. Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir þessi svör.