139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

aðgengi að bekkjarskólum á framhaldsskólastigi.

37. mál
[17:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það hlaut að koma að því að ég væri ekki sammála hæstv. menntamálaráðherra í þeim aðgerðum sem hún hefur tekið sér fyrir hendur en oftar en ekki er ég það þó. Ég dreg hér fram fyrirspurn og undirstrika að hún er í tengslum við innritun í framhaldsskólana og hún tengist valfrelsi nemenda og einstaklinga sem eru að sækja sér vist í framhaldsskóla.

Ég spyr hvernig ráðherra hyggist tryggja jafnt aðgengi allra grunnskólanema sem sækja um skólavist í svonefndum bekkjarskólum á framhaldsskólastigi. Hvernig eigum við að nálgast þetta? Við eigum að nálgast þetta út frá þeirri frumforsendu að það er markmið okkar sem hér stöndum og viljum veg menntamála sem mestan að reyna að ná fram óskum barnanna okkar. Óskir barnanna okkar eru í samræmi við það sem þau treysta sér til að gera, vilja og geta. Það mun styrkja sjálfstraust þeirra og sjálfsvirðingu innan skólakerfisins og að mínu mati síðan leiða til betri námsárangurs.

Við stóðum frammi fyrir því á síðasta ári að framhaldsskólakerfinu var breytt. Landið hafði allt verið eitt framhaldsskólasvæði og stúlkan sem var með 9,5 og bjó á Patreksfirði eða Tálknafirði hafði sömu möguleika og drengur sem bjó í 101 og var með 6,5. Nú er búið að snúa þessu við. Nú er strákurinn sem býr í 101 og hefur lægri einkunn mun betur settur til að sækja um hina svonefndu bekkjarskóla en stúlkan sem hefur góðar einkunnir, hvort sem er fyrir austan, norðan eða sunnan.

Ef menn rifja aðeins upp söguna var þessi ákvörðun tekin, um landið sem eitt framhaldsskólasvæði, eftir mikla umræðu. Ég veit að það voru ákveðnir vankantar á því hvernig ætti að koma börnum inn í skólann, það hefur alltaf verið þannig en það hefur alltaf verið leyst. Við eigum að miða við þá reglu að verja eigi valfrelsið og ekki þrengja reglurnar og miða við það hvar foreldrar velja að búa fimm eða tíu árum áður en börnin fara í framhaldsskóla.

Af því að hv. þm. Lúðvík Geirsson, fyrrum bæjarstjóri Hafnarfjarðar, er staddur hér í salnum vil ég að börn í Hafnarfirði, sem hafa ekki aðgengi að bekkjarskólum, hafi sömu möguleika og krakkarnir í kringum bekkjarskólana hér í Reykjavík til að velja sér skóla. Það er einfaldlega þannig að börn eru misjafnir einstaklingar og sumir einstaklingar pluma sig betur innan bekkjarkerfis en innan fjölbrautakerfis. En við í Hafnarfirði höfum ekki sömu möguleika fyrir börnin okkar og þeir sem búa í Reykjavík.

Ég tel rangt að nota þá (Forseti hringir.) aðferð að búsetuval foreldra ráði því í hvaða skóla (Forseti hringir.) börnin okkar komast. Þess vegna spyr ég: Hvernig hyggst ráðherra tryggja jafnt aðgengi allra barna í bekkjarskóla?