139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

aðgengi að bekkjarskólum á framhaldsskólastigi.

37. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Já, það er alveg hægt að skoða þetta frá ýmsum sjónarhornum. Mér finnst að við eigum bara að gefa okkur ákveðin prinsipp og prinsippið er valfrelsi, að allir hafi jafnan rétt til vals hvort sem þeir búa fyrir norðan eða sunnan, austan eða vestan, að landið sé áfram allt eitt framhaldsskólasvæði. Þá vil ég frekar að það verði geta nemenda sem ráði því í hvaða skóla þeir geta farið en búsetuval foreldra. Mér finnst það ekki gott og það ýtir undir það að búseta mun að lokum skipta máli.

Þá velti ég fyrir mér: Er þá ráðuneytið búið að kortleggja það hvaða áhrif það getur haft á samfélagsgerðina ef búseta skiptir höfuðmáli? Við vitum að búseta skiptir máli þegar við veljum hverfisskóla fyrir börnin okkar á grunnskólastigi. Viljum við fara í þá vegferð alla? Hvaða afleiðingar hefur það að ýta undir að búseta foreldra skipti hér máli?

Ég segi: Misvægi, já, það er ákveðið misvægi en misvægi verður ekki bætt með auknu misvægi. Ég tel að við höfum horfið af leið sem lengi var búið að berjast fyrir. Ég var að tala um að við hefðum átt að rifja upp söguna. Fyrir 15 eða 16 árum, þegar þetta kerfi var sett á og þessi regla, var búin að vera blússandi óánægja með það gamla kerfi sem við erum nú að hverfa aftur til með þessu hverfafyrirkomulagi.

Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra ætlar að fara yfir innritunarreglurnar og skoða hvernig til hefur tekist. Ég fagna því líka að námsmatið verði væntanlega breikkað og litið verði til fleiri þátta því að við vitum það öll sem eigum börn að þau eru misjöfn og þau hafa hæfileika á misjöfnum sviðum og það er um að gera að þau fái að njóta sín á því sviði sem þau eru best í.

Ég vil þó fagna því í lokin að menn ætla að fara yfir þessi mál um leið og ég harma að horfið hafi verið frá því að (Forseti hringir.) landið sé allt eitt framhaldsskólasvæði.