139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

aðgengi að bekkjarskólum á framhaldsskólastigi.

37. mál
[17:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á það að meiri hluti plássa í framhaldsskólum er til ráðstöfunar samkvæmt þeim kröfum sem skólarnir sjálfir setja, þannig er það nú. Hins vegar lít ég líka svo á að fræðsluskyldan, sem sett var á í lögunum 2008, hafi breytt skyldum ríkisins, þ.e. að ríkisvaldinu er nú skylt að sjá til þess að allir nemendur fái skólavist og það setur hið opinbera vissulega í aðra stöðu en áður þegar skólarnir voru algjörlega sjálfráða um inntöku. Ég lít því svo á að við höfum þurft að bregðast við því en ég ítreka það sem ég sagði hér áðan: Við unnum þessar innritunarreglur í samráðshópi. Hann verður kallaður saman aftur nú til að fara yfir þær. Það eru ekki heilagar tölur eða heilagar stærðir í þessum efnum.

Okkar markmið er fyrst og fremst að uppfylla þessi ákvæði þannig að allir nemendur undir 18 ára aldri fái skólavist í einhverjum af okkar mjög svo góðu framhaldsskólum. Þar takast auðvitað á þau sjónarmið að nemendur vilja geta hreyft sig til og farið á milli, sem er eðlilegt, og þau sjónarmið að fólk vill geta sótt framhaldsskóla á sínu nærsvæði. Kannski tengist það því að nú eru börnin börn til 18 ára aldurs og það hefur kannski líka breytt viðhorfum fólks — og það þykjumst við a.m.k. skynja — til framhaldsskólans sem ákveðinnar nærþjónustu.

Mér finnst mjög gott að við ræðum það opinskátt hvernig við sjáum framhaldsskólann, hvort þetta á að vera fullkomið valfrelsi eða hvort við eigum að fara leið þar sem farið er bil beggja sem ég taldi skynsamlega við innritun nú síðast.