139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að í þessari umræðu er að vanda komið víða við. Ég tek fyrst eindregið undir orð síðasta ræðumanns, að nokkuð mikilvægt sé að það fari að skýrast hvað og hvernig ríkisstjórnin ætli að taka á því aðlögunarferli sem nú virðist vera í gangi. Ekki virðast allir þar á bæ, þar innan dyra, róa í sömu átt. Spurningin er auðvitað hvernig það gangi í því ferli sem hæstv. ríkisstjórn tók sjálf ákvörðun um að setja af stað.

Að öðru. Ég ætlaði að nefna og beina því þá kannski helst til hv. formanns utanríkismálanefndar, en hæstv. utanríkisráðherra er í salnum þannig að hann gæti brugðist við líka, en ég er að velta fyrir mér hver afstaða manna hér er til þess hvernig íslensk stjórnvöld eiga að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við kínversk stjórnvöld vegna andófsmannsins Liu Xiaobo sem norska Nóbelsverðlaunanefndin hefur tilkynnt að muni hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár. Það liggur fyrir að einstakir ráðamenn hafa lýst sjónarmiðum sínum í þeim efnum og um það má lesa á ýmsum heimasíðum á internetinu en ég er að velta fyrir mér hvort hv. formaður utanríkismálanefndar þingsins, Árni Þór Sigurðsson, sé mér sammála um að íslensk stjórnvöld þurfi sem slík að tala sterkari röddu í þessu máli og gera þá kröfu á hendur kínverskum stjórnvöldum að Liu Xiaobo verði látinn laus úr haldi og geti tekið við friðarverðlaunum Nóbels í ár.