139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hann vakti máls á því sem við ættum að sjálfsögðu og erum vonandi flest að hugsa hve mest um og ræða, sem eru málefni heimilanna.

Ég vil þó koma með einn vinkil á umræðuna sem hefur verið um mannréttindamál. Ég vil taka fram að ég er algerlega sammála þeim sem gagnrýna kínversk stjórnvöld fyrir það sem þau eru að gera. En ég vil benda þeim sömu á að ekki alls fyrir löngu var íslensk þjóð beitt grímulausum kúgunum af löndum Evrópusambandsins til að taka á sig byrðar sem henni bar ekki að taka í svokölluðu Icesave-máli.

Frú forseti. Það bendir margt til þess að staða heimilanna verði óbreytt þegar þingheimur heldur nú kjördæmaviku og Norðurlandaráðsþing. Það þýðir að þessi salur verður mannlaus í nær 14 daga. Hér verður ekki rætt um stöðu heimilanna á þeim tíma, frú forseti. Ætlum við að láta það gerast að fara í þá vinnu sem okkur sannarlega ber að nýta, sem er kjördæmavika og Norðurlandaráðsþing, án þess að vera komin með endanlega lausn fyrir skuldugustu heimili landsins og þau skuldugu? Ætlum við að láta það viðgangast, frú forseti? Ég vil velta þessu upp og benda á það því að mér finnst við ekki geta það. Okkur er sagt að verið sé að reikna ýmsar leiðir úti í bæ. Það er mjög mikilvægt að upplýst verði hver stefna ríkisstjórnarinnar er í málinu. Er það stefna hennar sem mér virtist koma fram hjá hæstv. forsætisráðherra að ekki ætti og búið væri að slá út af borðinu almenna leiðréttingu á lánum? Er það virkilega þannig? Það er óréttlátt ef svo er. Mér finnst við ekki geta verið í burtu í 14 daga án þess að fá a.m.k. upplýst kristaltært (Forseti hringir.) hvað stjórnin ætli að gera á þeim tíma.