139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum -- IPA-styrkir ESB -- mannréttindamál í Kína o.fl.

[14:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því mjög að hv. þm. Birgir Ármannsson skuli hafa tekið hér upp á þingi málefni nóbelsverðlaunahafans Liu Xiaobo, ljóðskálds og andspyrnumanns, við ómanneskjulegt kerfi í Kína og ólýðræðislegt. En mér finnst kannski ekki mikill völlur á þingmanninum að krefjast þess af einhverjum öðrum að það sé mótmælt og hann sé studdur, sá góði maður, þegar við erum stödd á vettvangi æðsta valds sem þjóðin hefur falið einni stofnun, sem er Alþingi Íslendinga. Mér þykir í raun og veru leiða af sjálfu að úr því að við erum að taka þetta mál á dagskrá þá gerum við það, ég og hv. þingmaður, að flytja þingsályktunartillögu þar sem við fögnum nóbelsviðurkenningu Liu Xiaobo og hvetjum til þess að hann verði leystur úr haldi í Kína. Þetta má gera á u.þ.b. 20 mínútum og hægt að koma henni inn í þingið þess vegna á morgun. Ef vilji þingsins er jafneindreginn í þessu máli og ég ætla gæti þetta orðið að veruleika áður en þingið fer í sína kjördæmaviku og ég ætla að ræða þetta við Birgi Ármannsson á eftir. (Gripið fram í: Má ég vera með?) Hér rétta menn upp hendur til að vera með á þessari tillögu. Sko — meira. Og ég þakka fyrir þær undirtektir strax.

Um trúboð í skólum ætla ég ekki að ræða. Ég tel fulla ástæðu til þess að þar sé farið gætilega, skólarnir eru borgaralegar stofnanir á Íslandi og ekki trúarlegar. Ég verð hins vegar að segja að þegar ég sé yfirlit í blöðum um hvað þar fer fram þá hefur nú margt breyst frá því að ég var í skóla. Ég man ekki eftir þessum prógrömmum í kirkjusóknum og prestakomum þegar ég var á þessum aldri og var ég þó ekki í mjög ókristilegum skólum.