139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að segja hæstv. fjármálaráðherra að ég gleðst yfir þeim afgangi sem er á fjáraukalögum og þó að hann sé til kominn vegna vaxtalækkunar og vegna Avens-samkomulagsins þá gleðst ég engu að síður. Þetta léttir okkur baráttuna í framhaldinu.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég er illa brenndur af dæmi sem heitir Harpa og var laumað inn í 6. gr. heimildir: Hvað er á bak við 6. gr. heimildirnar sem hér er talað um, t.d. að auka hlut ríkissjóðs í Farice? Af hverju eru ekki nein efri mörk á því? Geta þau verið hver sem er? Eins skal leggja bönkum og sparisjóðum til aukið fé. Það vantar allar tölur þar. Svo á að heimila Landhelgisgæslunni að leigja hentuga björgunarþyrlu, þar vantar líka tölu. Mér finnst eðlilegt að þarna kæmu fram tölur, sérstaklega vegna þess að það er ekki nema tveir og hálfur mánuður eftir af árinu þannig að það hlýtur að liggja fyrir hvað stendur til með þessi kaup. Og ef menn ætla að kaupa 60% af eignarhlut Reykjavíkurborgar í Miðbæjarskólanum þá vantar þar líka efri mörk á hvað það má kosta. Sumt af þessu geta verið mjög stórar tölur eins og að leggja bönkum og sparisjóðum til fé. Ég hef ekki hugmynd um það, eru þetta 100 milljónir, 10 milljarðar eða hvað er þetta?

Svo vildi ég spyrja um lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun sem fært er undir fjármálaráðuneytið. Það eru eftirlaun til fyrri starfsmanna ríkisbanka. Óskað er eftir 50 millj. greiðsluheimild í þennan lið vegna skuldbindingar fyrrum starfsmanna Landsbanka hf. Það er þá um að ræða bankastjóra, aðstoðarbankastjóra og maka þeirra. Lá þetta ekki fyrir þegar fjárlög fyrir árið 2010 voru samþykkt?