139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við hljótum öll að gleðjast yfir því að afkoma ríkissjóðs er betri vegna þess að það lækkar vaxtabyrði framtíðarinnar sem veitir ekki af að lækka. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég vil segja að það væri skemmtilegra að sjá ákveðnar upphæðir í þessum heimildum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar. Nú er mikið rætt um skuldavanda heimilanna og mikið verið að vinna þar. Sérfræðingar eru að skoða kostnað við átta, níu leiðir, átta og hálf leið eða eitthvað svoleiðis. Ég vil spyrja hvort ekki sé gert ráð fyrir kostnaði í sambandi við þessa upplýsingavinnu fyrir nefndirnar, fyrir utan kostnaðinn sjálfan. Svo maður tali nú ekki um kostnaðinn ef menn skyldu detta niður á einhverja leið eins og almenna skuldaniðurfellingu sem hugsanlega gæti kostað ríkissjóð, í gegnum Íbúðalánasjóð og skaðabætur til lífeyrissjóðanna og til kröfuhafa bankanna, hugsanlega tugi milljarða eða hundruð. Er ekkert rætt um þetta í fjáraukalagafrumvarpinu? Þetta á vonandi að klárast fyrir áramót.